Reyðarfjarðarhreppur yngri, varð til út úr Reyðarfjarðarhreppi eldra árið 1907, mörkum Eskifjarðar- og Reyðarfjarðarhreppa var breytt Eskifjarðarhreppi í hag árið 1968 og nokkrir bæir færðust til Eskifjarðarhrepps. Reyðarfjarðarhreppur varð að Fjarðabyggð með Neskaupstað og Eskifjarðarbæ árið 1998. Mjóafjarðar- og Fáskrúðsfjarðarhreppar og Austurbyggð (Búða- og Stöðvarhreppar) komu í Fjarðabyggð árið 2006. Prestakall: Hólmar til ársins 1951, Eskifjörður frá árinu 1951. Sóknir: Hólmar 1907–1911, Búðareyri/ Reyðarfjörður frá árinu 1911, Eskifjörður 1907–1968 (bæir í Kálknum, dalnum inn af Eskifjarðarbotni, voru í Reyðarfjarðarhreppi á þessum tíma en í Eskifjarðarsókn). — Fríkirkjusöfnuður var innan hreppsins frá stofnun hans og fram um 1925.
Björk Ingimundardóttir. Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi. Reykjavík: Þjóðskjalasafn Íslands. 2013.