Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Bjarnason

(1766–21. febr. 1843)

Prestur.

Foreldrar: Bjarni Eiríksson í Djúpadal í Skagafirði og kona hans Sigríður Jónsdóttir prests í Saurbæ í Eyjafirði, Sigfússonar. F. í Djúpadal. Tekinn í Hólaskóla 1780, stúdent 12. maí 1785, með góðum vitnisburði, var síðan 1 ár hjá foreldrum sínum, en 2 ár (1786–8) kennari á Víðivöllum, hjá Vigfúsi sýslumanni Scheving, síðan aftur hjá foreldrum sínum, til þess er hann vígðist 20. apr. 1794 aðstoðarprestur síra Bjarna Jónssonar að Mælifelli og bjó fyrst á Lýtingsstöðum, en síðar Hafgrímsstöðum. Síra Eiríkur sókti mjög fast að komast að Mælifelli og að síra Bjarni gæfi upp prestakallið, enda var hann hin síðari ár óhæfur til prestsþjónustu, fyrir elli sakir og heilsubrests. Sumarið 1809 kom Jörundur Jörgensen að Hafgrímsstöðum og hét síra Eiríki prestakallinu, en um haustið andaðist síra Bjarni, og fekk síra Eiríkur ekki prestakallið; spillti það fyrir honum lengi við stjórnina, að hann hafði verið gæfur við Jörund.

Fluttist 1811 aftur að Djúpadal og bjó þar embættislaus, til þess er hann fekk Staðarbakka 31. dec. 1826, fluttist þangað næsta vor og var þar til dauðadags, en hélt aðstoðarprest (síra Þorlák Stefánsson) frá 1838. Hann var talinn gáfumaður, áheyrilegur kennimaður, skrafhreyfinn og skemmtinn, búhöldur góður og auðsæll.

Kona (1792): Herdís (d. 29. júlí 1843, 74 ára) Jónsdóttir á Bakka í Viðvíkursveit, Bjarnasonar.

Börn þeirra, er upp komust: Þórdís átti Gísla Ásgrímsson á Kálfsstöðum, Sigríður, varð úti 1817 (22 ára), óg. og bl., Þorbjörg f.k. Árna Sigurðssonar í Stokkhólma, síra Jón að Undornfelli, Helga átti síra Björn Arnórsson í Garði í Kelduhverfi, Bjarni á Bakka í Viðvíkursveit, Stefán stúdent, Eiríkur hreppstjóri í Djúpadal (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.