Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eiríkur Bjarnason

(1704–19. nóv. 1791)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Bjarni lögréttumaður Bjarnason að Fossvöllum (skálds Pálssonar„ Guttormssonar að Brú, Jónssonar) og kona hans Steinunn Ketilsdóttir prests á Svalbarði, Eiríkssonar.

Foreldrar hans dóu báðir í bólunni miklu 1707, og var hann þá tekinn í fóstur af föðursystur sinni, en fór síðan til móðurbróður síns, síra Þorsteins Ketilssonar að Hrafnagili, og lærði hjá honum, en gekk síðan í Hólaskóla, og mun stúdent þaðan 1727 eða 1728, varð djákn á Þingeyrum 1729, vígðist 19. apr. 1733 prestur að Miðgörðum í Grímsey, en þoldi ekki að vera þar og fluttist þaðan sjúkur vorið 1735, varð þá aðstoðarprestur að Hrafnagili, hjá síra Þorsteini, móðurbróður sínum, fekk Eyjadalsá um 28. sept. 1742, Skorrastaði 12. okt. 1747, Þvottá 1751 í skiptum við síra Þórarin Jónsson, en varð vegna fátæktar að hverfa þaðan 1755, og var þá Þvottárprestakall lagt til Hofs í Álptafirði, en hann fór embættislaus að Skálholti. Gegndi preststörfum á Stað í Grindavík veturinn 1755–6. Síðast fekk hann Hvalsnesþing 10. dec. 1755, bjó þar í Gerðakoti, síðar á Löndum, fekk lausn frá prestskap 1767 og fluttist að Hlíðarhúsum í Rv., en sinnti skriftum fyrir ýmsa embættismenn syðra og gegndi stundum prestsverkum fyrir Garða- og Reykjavíkurpresta, í forföllum þeirra, og var millibilsprestur í Rv. 1781–2. Var í Gufunesi 1786. Árið 1788 fluttist hann til dótturdóttur sinnar í Bár í Eyrarsveit, og þar andaðist hann, hafði aldrei áður í sótt legið. Hagir hans voru jafnan mjög erfiðir.

Talinn vel gefinn og vandaður, en ekki þókti mikið til hans koma. Hann hefir orkt býsn af andlegum sálmum og kvæðum (sjá t.d. JS. 388, 8vo., sjá og Lbs.) og þýtt. Rímur eru til eftir hann (Lbs.): Af Berthold engelska, af Laxdælu, af Theophilus og Crispinus og af Hrafnkatli Freysgoða (Lbs., sjá rímnaskrár).

Kona (1738): Ingunn (f. um 1698, d. 1769) Sigurðardóttir lögréttumanns, Hannessonar, Hún hafði áður átt barn í föðurgarði með Magnúsi Magnússyni prests í Hvammi, Magnússonar, er heitið hafði henni eiginorði, en rift; varð Magnús fyrir fjárútlátum allmiklum í alþingisdómi 1729 (sjá alþb. s.á.).

Dætur þeirra síra Eiríks, er upp komust: Guðrún átti Níels lögréttumann Hjaltalín (Jónsson) í Hlíðarhúsum (s. k. hans), Kristrún átti Bessa blóðtökumann Jónsson á Löndum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.