Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Arnór Jónsson

(27. dec. 1772–5. nóv. 1853)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Hannesson að Mosfelli í Mosfellssveit og kona hans Sigríður Arnórsdóttir sýslumanns í Belgsholti, Jónssonar. F. í Marteinstungu í Holtum. Hafði í fyrstu óbeit á bóknámi, en þó varð það úr, að hann tók að læra undir skóla hjá föður sínum, tekinn í Reykjavíkurskóla eldra 1789, stúdent þaðan 1794, með miklum lofsorðum. Varð s. á. skrifari hjá Skúla fyrrum landfógeta Magnússyni og síðan hjá Ólafi stiftamtmanni Stefánssyni 2% ár, settur kennari í Reykjavíkurskóla 1797–8, fekk Hestþing 2. maí 1798, vígðist 6. s. m., bjó þar víða (á Indriðastöðum 1799, Neðra Hreppi 1800–2, síðan að Hesti, en síðast á Hvítárvöllum), varð prófastur í Borgarfjarðarsýslu 1807, en fekk Vatnsfjörð 9. jan. 1811 og fluttist þangað þá um vorið, varð prófastur í norðurhluta Ísafjarðarsýslu 25. sept. 1817 og hélt því starfi til dauðadags.

Hélt 1829–41 aðstoðarprest, Hannes, son sinn. Hann var skarpur maður, vel lærður, kenndi mörgum undir skóla, góður kennimaður, en nokkuð fljótfær í embættisverkum.

Hann var lágur vexti, en þrekvaxinn, fjörmaður mikill, rammur að afli og glímumaður ágætur. Búmaður var hann lítill og átti oftast erfiðan fjárhag. Hann var skáldmæltur, og eru 14 sálmar eftir hann í Leirárgarðasálmabók, kvæðið „Forsetaheimt“ (pr. í Kh. 1821, í heiðursskyni við Magnús Stephensen), kvæði í Klausturpósti og í handritum, auk þess margar grafskriftir og erfiljóð (í Klausturpósti, aftan við æviminning Árna byskups Þórarinssonar og víðar), á og í ádeilukvæðum þeim, sem orkt voru um Leirárgarðasálmabók („Greppssálm“). Þýddi á íslenzku fyrra hluta Biblíulestra Balles (pr. í Leirárgörðum 1799).

Kona 1 (12. júlí 1799): Sigríður (f. um 1771, d. í jan. 1837) Sveinsdóttir næturvarðar í Reykjavík, Jónssonar.

Sonur þeirra: Síra Hannes.

Kona 2 (1838): Guðrún (d. 1869) Magnúsdóttir í Tröð í Álptafirði, Jónssonar.

Börn þeirra: Magnús (var á Ísafirði), Sigríður átti Hanníbal Jóhannesson á Bakka í Langadal. Eftir lát síra Arnórs giftist Guðrún Þórði Magnússyni í Hattardal, er um tíma var alþingismaður (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.