Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Þorleifsson

(3. nóv. 1754–22. mars 1834)

Prestur.

Foreldrar: Þorleifur lögréttumaður Pálmason á Breiðabólstað í Sökkólfsdal og kona hans Elín Árnadóttir á Grund í Skorradal, Sigurðssonar. F. á Breiðabólstað. Lærði undir skóla 3 vetur (1768– 71) hjá síra Vigfúsi Erlendssyni að Setbergi og síðan 2 vetur (1771–3) hjá síra Þorsteini Sveinbjarnarsyni að Hesti, tekinn í Skálholtsskóla 1773, stúdent þaðan 9. maí 1778, með lofsamlegum vitnisburði, var síðan 4 ár hjá foreldrum sínum, vígðist 4. ág. 1782 aðstoðarprestur síra Sigurðar Jónssonar að Kálfatjörn, fekk veiting fyrir Reykjadal 10. nóv. 1785, en vildi ekki taka við því prestakalli, og er síra Sigurður lét af prestskap 1786, varð hann embættislaus, bjó fyrst 3 ár í Flekkuvík, en fluttist 1789 að Grund í Skorradal, þjónaði Lundi í milli presta veturinn 1790, fekk 12. mars 1791 Holtaþing og settist að í Guttormshaga. Missti sjón 1810 og hélt síðan aðstoðarpresta, til þess er hann lét af prestskap vorið 1824 og fluttist að Saurbæ í Holtum. Hann var klerkur góður, vel gefinn, en jafnan heilsutæpur, búmaður góður, en þókti sérlyndur og dramblátur.

Kona (16. sept. 1783): Ragnhildur td. 27. mars 1829, 73 ára) Sigurðardóttir prests að Kálfatjörn, Jónssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Guðmundur í Raftholti, Gísli í Flekkuvík, Málmfríður átti Pál Þórhallason að Þórunúpi, Ragnhildur átti Magnús Brandsson að Læk í Holtum, síðar í Saurbæ, Sigurður í Saurbæ, síðar í Marteinstungu (SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.