Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Árnason

(um 1740–30. mars 1822)

Prestur.

Foreldrar: Árni Magnússon í Hjálmarvík í Þistilsfirði, síðar í Leirhöfn á Sléttu (almælt var, að síra Jóhann Kristjánsson á Svalbarði, síðar að Mælifelli, væri faðir síra Einars, enda þókti hann líkjast honum) og kona hans Þórdís Jónsdóttir (aðrir telja hana Einarsdóttur á Bakka á Tjörnesi, Jónssonar), og varð hún síðar f. k. Þorvalds Jónssonar að Blikalóni. Þegar hann var 12 ára, fór hann að Oddsstöðum til Guðrúnar Eiríksdóttur, enda gaf hún honum síðar próventu sína (1766). tekinn í Hólaskóla 1758, stúdent þaðan 1764. Var síðan heimiliskennari á Möðruvöllum, hjá Lárusi klausturhaldara Scheving, þar til hann fekk Nes 5. okt. 1767, vígðist 9. nóv. s. á., fekk Sauðanes 3. mars 1784 og hélt til 1812, en andaðist í Sauðanesi. Hann var maður vel að sér, göfuglyndur og höfðingi að rausn, enda vel látinn.

Hann lét sér mjög hugað um æðarvarpið í Sauðanesi og fekk verðlaun úr konungssjóði fyrir það 15. júní 1789.

Kona: Margrét (d. 19. mars 1818) Lárusdóttir klausturhaldara Schevings.

Börn þeirra, er upp komust: Síra Stefán í Sauðanesi, síra Jón síðast í Stöð, Einar skólagenginn, bjó í Dal í Þistilsfirði, Guðrún varð fyrr s.k. síra Skafta Skaftasonar á Skeggjastöðum, átti síðar síra Stefán Þorsteinsson á Völlum, Anna varð s.k. síra Stefáns Lárussonar Schevings að Presthólum, móðurbróður síns, Hálfdan skólagenginn, bjó á Oddsstöðum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.