Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Árnason

(um 1498–9. júlí 1585)

Prestur, officialis.

Hann getur þess sjálfur í skjali 8. okt. 1575, að hann hafi alizt upp í Vallanesi í 20 ár. 1520 varð hann prestur á Hallormsstöðum. Í sama skjali segist hann hafa verið prestur í Vallanesi í 43 ár, hefir hann þá fyrst verið aðstoðarprestur Sigmundar byskupsefnis Eyjólfssonar og síðan fengið staðinn eftir hann, en af prestskap lét hann 1573 og mun þá hafa setzt að á Ketilsstöðum á Völlum. Sumir telja, að hann hafi um hríð (í 10 ár) haldið Hólma í Reyðarfirði, en það er víst svo að skilja, ef rétt er, að hann hafi haft umsjá með þeim stað, en ekki flutzt þaðan að Vallanesi.

Hann hélt Múlaþing 1552–3, og Skriðuklaustur fekk hann að veitingu konungs 11. mars 1554. Hann var í 30 ár officialis í Austfjörðum. Er auðsætt, að hann hefir verið hinn mikilhæfasti maður, enda kemur hann mjög við skjöl.

Kona 1: Arndís (d. 2. maí 1565) Snorradóttir, Helgasonar (fremur en dóttir síra Snorra Hjálmssonar í Holti).

Börn þeirra: Síra Hjálmur á Kolfreyjustað, Árni að Hafursá, síra Hallvarður á Valþjófsstöðum. Talinn hefir verið sonur síra Einars síra Sigurður í Bæ á Rauðasandi, en svo getur ekki verið tímans vegna; nær væri, að síra Einar hafi verið afi hans eða jafnvel langafi (Dipl. Isl.; Alþb. Íslands; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.