Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Torfason

(um 1710–25. júlí 1758)

Prestur.

Foreldrar: Síra Torfi Halldórsson á Reynivöllum í Kjós, er bjó að Vindási, og kona hans Sigríður Pálsdóttir prests á Gilsbakka, Gunnarssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1728, stúdent þaðan 20. apr. 1734, vígðist 27. mars 1738 aðstoðarprestur föður síns, bjó að Vindási til vors 1757, fluttist þá að Reynivöllum, sem verið höfðu kotbær síðan snjóflóðið mikla 1699.

Síra Einar fekk heldur lélegan vitnisburð í skýrslum Harboes.

Hann andaðist í Svínaskarði á leið suður á nes, hafði fallið af hestbaki og fannst með annan fótinn í ístaðinu.

Kona: Tngibjörg Jónsdóttir að Hæli og Signýjarstöðum, Einarssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Jón vísað úr Skálholtsskóla vegna tornæmi, bjó í Háteigi á Akranesi, síra Þorsteinn að Staðarhrauni, Sigríður átti síra Jón Ásgeirsson í Stapatúni, Málmfríður átti Guðmund í Sogni í Kjós Jónsson (prests á Reynivöllum, Þórðarsonar), Guðrún f.k. síra Bjarna Péturssonar að Útskálum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.