Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Torfason

(um 1633–4. sept. 1698)

Prestur.

Foreldrar: Síra Torfi Snæbjarnarson á Kirkjubóli í Langadal og kona hans Helga Guðmundsdóttir prests á Staðastað, Einarssonar. Hann lærði undir skóla hjá síra Guðmundi á Staðastað, móðurföður sínum, en varð stúdent 1654 eftir 4 vetur úr Skálholtsskóla (auknefndur þar „kusi“), skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 1. nóv. 1655, var þar um hríð (a.m.k. í 4 ár) og mun hafa orðið attestatus í guðfræði, fekk 11. ágúst 1659 meðmælabréf konungs til rektorsembættis í Skálholti, en á prestastefnu á alþingi 1660 lýsti Brynjólfur byskup Sveinsson því, að hann vildi ekki taka við honum, og gaf Einar þá upp tilkall sitt. Hann virðist um hríð hafa verið til heimilis að Staðarhóli (hjá Bjarna Péturssyni), en 1664 hóf hann búskap í Kollafjarðarnesi. Byrjuðu þá brátt deilur hans, sem hann átti við ýmsa alla ævi, og lék jafnan á honum þungt orð. Hann vígðist 24. júlí 1670 að Stað í Steingrímsfirði, gegn vilja sóknarmanna þar, sem óskað höfðu eftir síra Magnúsi, syni síra Einars Sigurðssonar, fyrirrennara hans, og skyldi síra Magnús þó hafa útkirkjuna frá Stað (Kaldrananes) og að auk 12 rd. frá síra Einari; risu af þessu deilur síðar. Átti (1676) son, Teit, í hórdómi með Guðrúnu Halldórsdóttur (ekkju Þorleifs Einarssonar að Tindum). Vafði hann það mál í 3 ár.

Fór hann síðan utan og fekk leyfi konungs til þess að fá annað prestakall (konungsbréf 5. mars 1680), og hlaut hann 8. júlí 1682 Stað á Reykjanesi, sem hann hélt til dauðadags.

Talið er, að hann hafi fallið af hestbaki drukkinn og hálsbrotnað. Páll lögmaður Vídalín lætur mikið af lagavizku síra Einars, að hann hafi verið mestur lagamaður sinna tíma og ber heldur blak af honum, segir hann hafa verið einn af þeim, sem sigldu vegna kaupsetningar 1684.

Kona (líkl. 1673): Ragnheiður (f. um 1648, enn á lífi 2. maí 1718) Jónsdóttir sýslumanns að Miðhúsum, Magnússonar.

Börn þeirra, er upp komust: Einar eldri sýslumaður í suðurhluta Barðastrandarsýslu, Einar yngri stúdent, síðast að Hóli í Bíldudal, Þórunn átti Magnús sýslumann Björnsson að Arnarstapa (Hist. litt. (P. Víd.); SGrBf.; albingisbækur).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.