Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Thorlacius (Þórðarson)

(um 20. mars 1764 [29. mars 1765, Vita]. –14. apríl 1827)

Prestur.

Foreldrar: Þórður Sighvatsson í Hlíðarhúsum og kona hans Ingiríður Ólafsdóttir prests Thorlaciuss í Stóra Dal (Jónssonar). Lærði undir skóla hjá síra Árna Þórarinssyni, síðar byskupi (veturinn 1777–8), og síðan 3 vetur (1778–81) hjá síra Þorleifi Bjarnasyni í Reykholti, tekinn í Skálholtsskóla 1781 og var þar 3 vetur, meðan skóli stóð þar, en gekk í Reykjavíkurskóla hinn eldra 1786, stúdent þaðan 2. júní 1789, með tæpum meðalvitnisburði. Var hjá foreldrum sínum síðan í 6 ár, var boðið af stiftamtmanni 24. okt. 1794 að taka að sér prestskap á Refsstöðum í Vopnafirði, en færðist undan því, og var það tekið til greina, vígðist 6. sept. 1795 aðstoðarprestur síra Vernharðs Guðmundssonar í Otradal, fekk það prestakall 23. júní 1798, eftir lát síra Vernharðs.

Átti framan af heima hjá bróður sínum í Bíldudal, Ólafi kaupmanni Thorlacius, og mun ekki hafa flutzt að Otradal fyrr en 1808. Fekk sér aðstoðarprest 1824 (síra Jón Sigurðsson síðar á Söndum), sagði af sér prestskap 1. nóv. s. á., enda þá orðinn nálega blindur, fluttist að kirkjujörðinni Fossi og var þar til dauðadags. Heldur þókti lítið til hans koma bæði í prestskap og öðrum efnum.

Kona (25. júlí 1808): Helga (f. um 1768, d. 4. dec. 1837) Egilsdóttir frá Hóli í Bíldudal. Hún hafði átt áður barn í lausaleik (líkl, með síra Einari sjálfum, er hún átti síðar), og uppreisn fekk hann 24. maí 1811 fyrir of bráða barneign með henni mánuði eftir hjónaband; fekk hann að halda prestakallinu.

Börn þeirra, er upp komust: Guðbjörg (f. um 1805–6, og er það barnið, sem Helga átti fyrir hjónabandið og kenndi öðrum, en síra Einar hefir síðar gengizt við) átti Gísla garðyrkjumann Gíslason að Fossi, síðar Neðri Hvestu, Einar að Neðri Brekku í Saurbæ, Þórður á Kjarlaksvöllum í Saurbæ (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.