Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Thorlacius (Hallgrímsson)

(5. janúar 1790–24. dec. 1870)

Prestur.

Foreldrar: Síra Hallgrímur Thorlacius (Einarsson) í Miklagarði og kona hans Ólöf Hallgrímsdóttir prests á Grenjaðarstöðum, Eldjárnssonar, Hann lærði hjá föður sínum, síðan hjá síra Jóni Jónssyni að Möðrufelli, en síðast Páli rektor Hjálmarssyni, varð stúdent frá honum úr heimaskóla 1808, með mjög góðum vitnisburði.

Var hann síðan hjá foreldrum sínum í 6 ár. Vígðist 30. mars 1814 aðstoðarprestur síra Hannesar Schevings á Grenjaðarstöðum og setti sama ár bú í Presthvammi, fekk Skinnastaði 17. maí 1818, en fluttist aldrei þangað, heldur fekk Goðdali, í skiptum við síra Þorlák Hallgrímsson; voru þau skipti leyfð 24. apr. 1819. Fekk Saurbæ í Eyjafirði, í skiptum við síra Sigurð Jónsson, 23. ágúst 1822, fluttist þangað vorið 1823, en lét af prestskap 1867. Var kosinn prófastur í Vaðlaþingi 1851, en með því að hann óskaði aðstoðarmanns, varð það úr, að byskup skipaði annan prófast.

Hann var talinn gáfumaður og mjög vel að sér, enda kenndi hann mörgum undir skóla, latínuskáld gott (og er sumt þeirra kvæða hans prentað, sjá Norðri, Ak. 1860–I1, en um ópr. kvæði hans vísast í Lbs.), kennimaður ágætur, búmaður allgóður, vel kynntur og þægilegur í viðmóti, þótt skapmikill væri. Var og áhugasamur um þjóðmál, og eru blaðagreinir eftir hann í norðanblöðunum, Norðra og Norðanfara.

Kona 7. júní 1814): Margrét (f. 1792, d. 23. okt. 1883) Jónsdóttir prests „lærða“ að Möðrufelli, Jónssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Ólöf s.k. Hallgríms gullsmiðs Kristjánssonar á Ak., síra Jón í Saurbæ, Elín átti Bjarna stúdent og verzlunarm. Gunnarsen á Ak., Margrét átti Hallgrím Tómasson í Miklagarði og Grund, Sigfús að Núpufelli, Bjarni settur læknir í Austfirðingafjórðungi (í Eskifirði), Hallgrímur að Hálsi í Eyjafirði, Þrúður átti Lárus Thorarensen að Hofi í Hjaltadal, Þorsteinn hreppstjóri að Öxnafelli (Lbs. 48, fol.; Vitæ ord. 1814; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.