Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Sæmundsson

(um 1684, enn á lífi 12. júní 1742)

Skáld.

Foreldrar: Síra Sæmundur Hrólfsson í Stærra Árskógi og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir. Lærði í Hólaskóla og er í sumum handritum talinn stúdent, og ef það er rétt, hefir hann orðið það um 1706–7.

Hann var með föður sínum til 1717, er hann fluttist að Fagra Skógi; þar er hann 1722 hreppstjóri, en hefir flutzt þaðan út í Svarfaðardal eða á Upsaströnd og er oft eftir það þingsvitni í þingbókum Vaðlaþings.

Hann var talinn vel að sér í mörgu, en fjölbreytinn og ekki vel þokkaður. Hann var vel hagmæltur, og eru eftir hann erfiljóð og einkum lausavísur, sumar ekki ósmellnar (Lbs.).

Kona: Margrét (f. um 1680) Björnsdóttir prests yngra á Hvanneyri, Björnssonar.

Börn þeirra: Björn að Skeri á Látraströnd, misjafnlega kynntur, Björg skáld (nefnd að jafnaði Látra-Björg), Þorlákur fór utan, stundaði erfiðisvinnu og græddi fé, en svelti sig og dó úr vesöld og hugsýki (Saga Ísl. VI; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.