Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Sigurðsson

(1670–1748)

Prestur.

Foreldrar: Sigurður lögréttumaður Magnússon að Sandhólaferju og Hólmfríður Hallgrímsdóttir. Mun hafa orðið stúdent úr Skálholtsskóla, farið norður með Birni byskupi Þorleifssyni 1697, og sveinn hans var hann, vígðist 3. júní 1703 að Hofi á Skagaströnd, fekk sér 1731 aðstoðarprest (síra Árna Daðason), sagði af sér prestskap 11. dec. 1738 frá fardögum næsta árs, bjó síðan í Króki í Nesjum til dauðadags, talinn efnaður maður.

Kona 1: Ingibjörg (f. um 1664–5) Steinólfsdóttir frá Staðarfelli, Árnasonar, fekk hann leyfi konungs 30. apríl 1701 til að ganga að eiga hana, þótt hún hefði áður átt 2 börn í lausaleik með öðrum mönnum; var hún 1703 með honum að Hólum, þá ráðskona þar; ekki er getið barna þeirra.

Kona 2: Elín Ólafsdóttir á Skeggsstöðum, Jónssonar. Dóttir þeirra: Hólmfríður átti Jón Pálsson frá Höskuldsstöðum (HÞ; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.