Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Sigurðsson

(1538–15. júlí 1626)

Prestur.

Foreldrar: Síra Sigurður Þorsteinsson, síðast í Grímsey, og Guðrún Finnbogadóttir ábóta að Munkaþverá, Einarssonar. Hann nam fyrst skólanám hjá föður sínum og síðan síra Birni Gíslasyni, er þá hélt Möðruvallaklaustur, var tekinn í Hólaskóla 1552, fullnuma þaðan 1557, vígðist s. á. aðstoðarprestur að Möðruvallaklaustri, fekk Mývatnsþing 1560 eða 1561, en Nes 1564; var um þessar mundir mjög fátækur og fekk styrk af fé til þurfandi presta. Prófastur var hann í Þingeyjarþingi frá 1572. Sumarið 1589 tók Oddur byskup, sonur hans, hann og allt fólk hans til sín suður í Skálholt, veitti honum vorið 1590 Hvamm í Norðurárdal og prófastsdæmi í Þverárþingi vestan Hvítár; en sama haust fekk hann Heydali og var þar til dauðadags, en prófastur í Múlaþingi 1591–1609 og officialis í Austfjörðum; hélt og Bjarnanesumboð, reyndist hinn röggsamasti maður, enda hraustmenni, léttur í lund og góðgjarn. Hann var skáld, og liggur eftir hann meira í kveðskap, bæði prentað (í Vísnabók) og óprentað en nokkurn Íslending annan fram að þessu.

Hann varð svo kynsæll, að leitun mun á þeim Íslendingi nú, er ekki sé af honum kominn, ef vel er að gáð.

Kona 1 (1563, að boði Ólafs byskups Hjaltasonar): Margrét (d. 1567, talin þá 44 ára) Helgadóttir, Eyjólfssonar; höfðu þau átt saman börn nokkur fyrir hjónabandið.

Börn þeirra, er upp komust: Oddur byskup, síra Sigurður á Breiðabólstað í Fljótshlíð, Sesselja átti síra Hall Hallvarðsson í Bjarnanesi,

Kona 2 (1569): Ólöf Þórarinsdóttir, Gíslasonar.

Börn þeirra: Síra Gísli, síðast á Stað á Reykjanesi, síra Ólafur skáld í Kirkjubæ í Tungu, síra Jón að Hofi í Álptafirði, síra Höskuldur í Heydölum, Eiríkur stúdent, dó utanlands, ókv. og bl., Margrét átti síra Árna Þorvarðsson í Vallanesi, Anna átti síra Ketil Ólafsson á Kálfafellsstað, Sigríður átti Bjarna silfursmið í Berunesi, Guðrún átti síra Gizur Gíslason að Þingmúla, Herdís, d. 10 ára (PEÓl. Mm.; Saga Ís. IV; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.