Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Marteinsson

(– –um 1604)

Prestur. Laungetinn sonur Marteins byskups Einarssonar með Guðrúnu Jónsdóttur, að því er menn telja. En það sést af dómi á alþingi 1579, að hann og Jón, bróðir hans, hafa verið laungetnir, með því að skírgetnum börnum Marteins byskups einum er þar dæmdur arfur eftir hann, en hinum (Einari og Jóni) einungis réttur til löggjafa. Hann er orðinn prestur 1560 (Dipl. Isl.), fekk Reykholt 1563, en Staðastað 1569 og hélt til dauðadags og var einnig prófastur í Snæfellsnessýslu.

Hann átti deilur nokkurar við Árna sýslumann Oddsson í Miðgörðum (= Syðstu Görðum = Hofgörðum), sjá Ísl. ártíðaskrár, bls. 250–3. Hann var valmenni og nokkuð einfaldur, listfengur, sem þeir föðurfrændur hans, einkum til kvennavinnu og klæðskurðar, vel efnum búinn.

Kona: Þórunn (d. 1610) Ólafsdóttir prests í Hjarðarholti, Guðmundssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Þórður, fór utan og dó þar, góður málari og vel að sér um margt (af laundóttur hans er allmikil ætt), Páll, mikilhæfur maður, sýslumaður og klausturhaldari, ókv. og bl., Guðrún átti fyrst Jón lögmann Jónsson frá Svalbarði og með honum 2 börn, er bæði dóu ung, síðar Steindór sýslumann Gíslason lögmanns, Þórðarsonar, og er talsverð ætt frá þeim (HÞ.; SGrBf.; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.