Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Magnússon

(– –1616)

Prestur.

Foreldrar: Magnús Björnsson að Reykjum í Tungusveit og kona hans Sigríður Grímsdóttir lögmanns á Ökrum, Jónssonar. Hann er a.m.k. orðinn fullveðja í skjali 28. okt. 1569 að Reykjum í Tungusveit.

Hann mun vera sá, er sókti Barðsmál á hendur Guðbrandi byskupi Þorlákssyni; getur fyrst í Múlaþingi 1582 og virðist hafa verið lögsagnari Björns Gunnarssonar að Burstarfelli (er einnig var skagfirzkur) a. m.k. 1583–4. Hann mun hafa vígzt prestur að Valþjófsstöðum árið 1585. Hann var óeirinn og átti oft sökótt við menn; var hann dæmdur frá prestskap fyrir prófastsdómi í Múlaþingi 1603, en svo er að sjá af alþingisdómi 1604 (sjá Alþb. Ísl.), að afsetningarsökin hafi ekki þókt nægja, enda virðist hann hafa haldið prestakallinu til dauðadags.

Kona: Arndís Hallvarðsdóttir prests á Valþjófsstöðum, Einarssonar.

Börn þeirra: Síra Rögnvaldur að Hólmum, Þóra átti Árna frá Eyjólfsstöðum Pálsson lögréttumanns, Björnssonar, Þórunn átti (22. okt. 1609) Eirík Magnússon frá Ási í Fellum, Vigfússonar (Ísl.; HÞ.; SGrBf.)).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.