Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Magnússon

(1702–1779)

Sýslumaður.

Foreldrar: Magnús sýslumaður Björnsson að Arnarstapa og kona hans Þórunn Einarsdóttir prests á Stað á Reykjanesi, Torfasonar.

Lærði í Skálholtsskóla, en var 1722 í þjónustu Orms sýslumanns Daðasonar. Honum var vísað úr Skálholtsskóla um áramótin 1723, af því að hann stakk einn skólabræðra sinna (Jón Andrésson, síðar prest í Arnarbæli) í fótinn, en að tilmælum Orms sýslumanns tók Jón byskup Árnason hann aftur í skólann, og mun hann hafa orðið stúdent þaðan 1724, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 24. sept. 1725, kom til landsins árið eftir og var 25. júlí 1726 skipaður af amtmanni lögsagnari Orms Daðasonar í Strandasýslu, fekk veiting fyrir sömu sýslu 25. júlí 1727 (konungsveiting 4. júní 1728) og var sama sumar alþingisskrifari í forföllum Sigurðar Sigurðssonar. Hann bjó 1731 að Felli í Kollafirði, en 1732 er hann kominn að Stóra Skógi í Miðdölum og 1734 að Vatni í Haukadal.

Síðar (1751–2) bjó hann í Bæ í Hrútafirði (mun hafa flutzt þangað 1735) og í Broddanesi er hann 1756–", en 1762 í Gröf í Bitru. Hann lét af sýslustörfum 1757, enda höfðu lengi legið á honum þungar kærur fyrir hóflausan drykkjuskap, en fekk þó eftirlaun (8 rd.). Síðast fluttist hann vestur að Ísafjarðardjúpi og andaðist á Eyri í Skutulsfirði í svefni, en hafði lagzt fyrir drukkinn. Hann var talinn margfróður í ýmsu, en þrætugjarn, grályndur sem móðurfaðir hans; eyddist honum mjög fé á síðari árum.

Kona 1: Elín (d. 1752) Jónsdóttir sýslumanns á „Hamraendum, Jónssonar.

Börn þeirra: Síra Magnús að Kvennabrekku, Þórunn átti Brynjólf Jónsson í Ljáskógum (bl.), Elín átti launson (Grím Thorkelín, síðar leyndarskjalavörð) með Jóni Teitssyni sýslumanns Arasonar, en gekk síðan að eiga Jón Sveinsson í Tjaldanesi.

Kona 2: Sigurlaug Sigurðardóttir frá Höfnum á Skaga; bl. (BB. Sýsl.; HÞ.; sjá og Alþb. 1741).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.