Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Jónsson

(um 1649–1728)

Prestur.

Foreldrar: Jón Einarsson að Fjöllum í Kelduhverfi og kona hans Sigríður Bjarnadóttir prests í Garði, Gíslasonar. Mun stúdent úr Hólaskóla 1672, því að 28. ág. s.á. fekk hann predikunarleyfi hjá byskupi. Hann hefir vígzt 1674 og þjónaði Viðvíkursókn veturinn 1674–S5, tók að sér að þjóna einnig Rípursókn til hvítasunnu 1676, en varð síðan áfram prestur á Ríp til 1684 (afhenti staðinn 20. maí s. á.), fekk þá Hof á Skagaströnd, en varð að láta af prestskap þar 1704 vegna veikinda, fluttist þá að Hjaltastöðum í Útmannasveit (til dóttur sinnar), og veitti þá stundum sóknarprestinum aðstoð í prestsverkum.

Þar komst hann til heilsu aftur.

Fekk Eiða að veitingu Páls Beyers haustið 1710, án þess að Skálholtsbyskup væri aðspurður, enda kærði hann það.

Hann mun hafa búið í Gilsárteigi, en sagði brátt (1712) af sér prestakallinu aftur. Síðan var hann með börnum sínum, síðast á Jörfa í Haukadal, og þar andaðist hann.

Kona (um 1676): Kristín Magnúsdóttir í Hvítanesi og Ögri, Bárðarsonar, þá þjónustustúlka að Hólum (hafði hún áður átt barn í lausaleik, og var hjónaband þeirra síra Einars eitt af kæruatriðum Jóns Eggertssonar á Gísla byskup Þorláksson).

Börn þeirra, er upp komust: Björg átti síra Ólaf Eiríksson á Breiðabólstað í Vesturhópi, Magnús skrifari á Jörfa í Haukadal (HÞ.; SGrBf.).

Einar Jónsson (um 1696–29. ág. 1771).

Prestur.

Foreldrar: Jón hreppstjóri Ketilsson í Brimnesi í Seyðisfirði og kona hans Þóra Skúladóttir, Einarssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1712, stúdent þaðan 1717, fekk 14. júní 1719 Eiða, vígðist s. á. (má vera 18. júní); bjó í Mýrnesi í Eiðaþinghá. Fekk 2. dec. 1729 Ás í Fellum, varð prófastur í Norður-Múlasýslu 1746, en fekk 12. okt. 1747 Berufjörð, tók við staðnum í fardögum 1748, fekk Kaldaðarnes 1761, í skiptum við síra Nikulás Magnússon, og hélt til dauðadags.

Fekk gott orð og var af samtímamönnum talinn vel að sér og hirðusamur um embættisverk (Finnur byskup Jónsson), meir hneigður til skáldskapariðkana en guðfræði og talinn drykkfelldur (segir Harboe).

Hann tíndi saman eða samdi upp úr ritum þeirra Arndts og Franckes bók, sem hann nefndi „Uppvakningar fyrir þá, sem lesa heilaga ritning“, sendi Finni byskupi 1762, og geðjaðist byskupi vel að.

Kona 1: Málmfríður Pétursdóttir prests á Klifstað, Þorvarðssonar.

Börn þeirra: Bjarni, skólagenginn, varð lögréttumaður, bjó í Flóa, dó í Miklagarði 12. maí 1800, Pétur í Hleinargarði, Jón á Kóreksstöðum.

Kona 2: Elín (d. 1780) Hallgrímsdóttir sýslumanns Jónssonar Thorlaciuss.

Sonur þeirra: Síra Hallgrímur Thorlacius í Miklagarði (HÞ.; SGrBf.).

Einar Jónsson (1700–9. nóv. 1779). Hólaráðsmaður.

Foreldrar: Síra Jón Þorvaldsson í Miklabæ í Blönduhlíð og kona hans Guðrún Jónsdóttir lögréttumanns að Urðum, Illugasonar. Lærði í Hólaskóla, stúdent þaðan líkl. 1723, varð djákn að Þingeyrum 3. nóv. 1724, fór með Oddi lögmanni Sigurðssyni til Kh. og var skráður þar í stúdentatölu 8. nóv. 1726, kom aftur til landsins 1727 og gerðist ráðsmaður á Þingeyrum hjá ekkju Lárusar lögmanns Gottrups; lenti hann þá (1731–2) í óþægilegum málaferlum vegna sauðamörkunar (þingbók Hvs. og alþb.). Var síðan í Bólstaðarhlíð, en varð ráðsmaður að Hólum 27. jan. 1738, fór þaðan 1742 að Viðvík og bjó þar lengi, fluttist 1777 að Stóra Dal í Svínavatnshreppi og átti þar heima til dauðadags.

Kona 1 (1738): Helga (d. 1750) Steinsdóttir byskups, Jónssonar (ekkja Jóns sýslumanns Pálssonar Vídalíns); þau bl.

Kona 2: Björg Bjarnadóttir á Hjaltastöðum, Eiríkssonar; þau einnig bl. Hann átti barn (líkl. þegar hann var djákn að Þingeyraklaustri) með Þórunni Þorsteinsdóttur að Syðri Þverá í Vesturhópi, Bjarnasonar, og missti þá rétt til prestskapar (HÞ.). í Einar Jónsson (um 1704–1784).

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón (,„greipaglennir“) Einarsson á Skinnastöðum og Í. k. hans Elín Jónsdóttir prests í Saurbæ í Eyjafirði, Hjaltasonar, Hann lærði í Hólaskóla og varð stúdent þaðan, vígðist 25. maí 1732 aðstoðarprestur föður síns og fekk prestakallið 1737, við lát hans, lét af prestskap 1775 og fluttist til dóttur sinnar að Fagradal í Vopnafirði; dóu þau þar bæði kona hans og hann sama árið úr vesöld og harðrétti. Hann var enginn búsýslumaður og var (1756) talinn meðal bágstöddustu presta í „ Hólabyskupsdæmi. Hann gegndi lengi (frá því fyrir 1753) Möðrudalssókn jafnframt prestakalli sínu og enn 1760 samkvæmt leyfi Hólabyskups, svo lengi sem Skálholtsbyskup eða amtmaður skipuðu ekki þangað sérstakan prest. Steinn byskup Jónsson lætur (1737) vel af mannkostum hans og gáfum, en Harboe telur hann (1742) illa gefinn og óskynsaman. Lækningabók (mest lækningar af grösum) er til eftir hann í ÍB. 381, 4to.

Kona: Guðrún yngri Björnsdóttir sýslumanns að Burstarfelli, Péturssonar.

Börn þeirra: Björn á Egilsstöðum í Vopnafirði (komst í sauðaþjófnaðarmál 1783 og var dæmdur til hýðingar), Jón á Ferjubakka, Guðrún flakkaði um Eyjafjörð með dóttur sinni og sinnti blóðtökum, Elín fór utan, dó óg. og bl. í Nesi við Seltjörn, Ragnheiður átti Árna Sigurðsson að Burstarfelli, Guðrún önnur átti Guttorm Guðmundsson, er fyrst bjó í Sunnudal, síðar í Fagradal, síðast á Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð, Gróa d. að Burstarfelli 1796, óg. og bl., Elísabet ljósmóðir átti Guðmund Jónsson á Gnýsstöðum í Vopnafirði (HÞ.; SGrBf.).

Einar Jónsson (1712–23. nóv. 1788). Rektor.

Foreldrar: Jón Einarsson á Hnappavöllum og kona hans Ólöf Jónsdóttir á Núpstað, Jónssonar. Var að nokkuru leyti alinn upp af Jóni byskupi Árnasyni í Skálholti, tekinn í Skálholtsskóla 1728, stúdent þaðan 1731, en fór eigi utan fyrr en 1738 með aðstoð Jóns byskups og skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 22. dec. 1738, lauk embættisprófi í guðfræði 21. mars 1741, með 3. einkunn, kom þá út samsumars og varð fyrst heyrari (konrektor) í Skálholtsskóla, en rektor þar 3. júní 1746, lét af því starfi 1753 vegna augnveiki, að kallað var, en var raunar vegna hörku og refsingasemi, og var jafnharðan settur sýslumaður í Snæfellsnessýslu, varð 3. okt. 1754 ráðsmaður í Skálholti og gegndi því starfi 3 ár, settur 28. mars 1768 sýslumaður í Vestmannaeyjum og var það 1 ár. Hann bjó frá því að hann kvæntist að Ási í Holtum, en andaðist í Áskoti.

Hann var lágur maður vexti og auknefndur „kútur“. Hann var vel að sér í mörgum greinum, skáldmæltur (sjá Lbs.; pr. eru erfiljóð eftir hann í æviminningu Guðrúnar byskupsekkju Einarsdóttur, Hólum 1778, og grafskrift 1761). Sá um prentun fingraríms Jóns byskups Árnasonar í Kh., enda rímfróður vel. Þýddi „Tvær fáorðar uppvakningar“ eftir ÁA. MH.

Francke, pr. í Kh. 1762. Skýrsla hans um Heklugos 1766 er í JS. 422, 4to. Hátíðarræða eftir hann 1749 er í ÍB. 389, 4to.

Hann þýddi stutta alfræðibók og sendi Thodal stiftamtmanni 1773, en ekki er nú kunnugt um það handrit. „Primitiva Novi Testamenti“ eftir Georg Pasor með formála og viðaukum Einars er í Lbs. 1057, 8vo (ehdr.).

Kona (1746): Kristín (f. 14. sept. 1724) Einarsdóttir lögréttumanns að Suðurreykjum í Mosfellssveit, Ísleifssonar.

Börn þeirra: Síra Gísli í Selárdal, Jón skólagenginn, bjó í Hellnatúni í Holtum, Ísleifur síðast dómstjóri landsyfirdóms, Ólafur stúdent að Húsum í Selárdal, Kristín átti Eirík hreppstjóra og dbrm. Sveinsson að Ási í Holtum, Kristín yngri átti Hákon Oddsson á Vatnsleysu, Guðný átti Ólaf Guðmundsson í Ásgarði í Grímsnesi (Saga Ísl. VI; HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.