Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Jónsson

(9. júlí 1754–6. dec. 1845)

Bóndi, dbrm.

Foreldrar: Jón Brynjólfsson í Miðdalsgröf og kona hans Þuríður Ólafsdóttir (systir Eggerts í Hergilsey). Bjó lengstum í Kollafjarðarnesi og þókti fyrir öðrum bændum, bætti jörð og kom upp æðarvarpi miklu, atorkumaður, hagsýnn og vel gefinn, enda varð hann auðmaður, en þó rausnsamur, gjöfull og manna hjálpsamastur. Stofnaði 1818 sjóð handa fátækum mönnum.

Kona 1: Ragnheiður (ættuð úr Skagafirði); áttu 1 barn, en það komst ekki á legg.

Kona 2: Þórdís Guðmundsdóttir í Seljum í Helgafellssveit, Torfasonar.

Börn þeirra: Ásgeir alþm., Magnús merkisbóndi í Hvylft í Önundarfirði, Guðmundur að Kleifum á Selströnd, Jón skipstjóri á Sveinseyri, Torfi alþm. að Kleifum, Ragnheiður s. k. Zakaríasar Jóhannssonar að Heydalsá (Guðbjörg Jónsd.: Gamlar glæður, Rv. 1943; sjá Blöndu TTT).

Einar Jónsson (1775–15. sept. 1811).

Prestur.

Foreldrar: Jón Jónsson á Steinsmýri í Meðallandi og Sigríður Einarsdóttir í Mörtungu, Gíslasonar. Lærði undir skóla hjá síra Jóni Steingrímssyni á Prestsbakka, tekinn í Reykjavíkurskóla hinn eldra 1791 og stúdent þaðan 1795, var síðan um hríð í þjónustu Jóns sýslumanns Helgasonar að Hoffelli, var boðið 29. mars 1800 að taka við Desjarmýri, vígðist 9. júní s. á. og var þar til dauðadags. Hann var skáldmæltur (sjá Lbs.).

Kona: Guðrún yngri (d. 17. sept. 1848, líkl. 76 ára) Jónsdóttir sýslumanns að Hoffelli, Helgasonar.

Börn þeirra: Jón var í vetur í Bessastaðaskóla, en vísað frá vegna tornæmis, bjó að Gilsá í Breiðdal, Guðmundur hreppstjóri á Flögu í Skriðdal, Sigríður óg. og bl., var fáráðlingur. Guðrún ekkja síra Einars átti síðar síra Engilbert Þórðarson, eftirmann hans (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).

Einar Jónsson (1775–11. ág. 1839). Kaupmaður, stúdent.

Foreldrar: Síra Jón Sigurðsson á Rafnseyri og fyrsta kona hans Ingibjörg Ólafsdóttir lögsagnara á Eyri, Jónssonar. Lærði undir skóla hjá föður sínum og Ólafi stúdent, bróður sínum.

Var tekinn í Reykjavíkurskóla hinn eldra 1794, stúdent þaðan 13. júní 1797. Mun hafa dvalizt með foreldrum sínum á Rafnseyri til 1802, er hann kvæntist og varð þurrabúðarmaður í Þingholtum í Rv., fluttist 1805 að Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi, en 1813 að Þerney, sem hann keypti 1816, fluttist þaðan aftur alfari til Rv. og var þar til dauðadags, hóf þar bráðlega veræzlunarrekstur, fyrst verzlunarstjóri, en síðan sjálfstæður kaupmaður. Honum búnaðist vel, enda var hann dugnaðarmaður og hagsýnn, og efnaðist vel á verzlun sinni, en eigi var hann talinn mikill lærdómsmaður. Sjálfur segir hann í bréfi til Steingríms byskups Jónssonar 19. júní 1826, að 16 sinnum hafi hann sókt árangurslaust um prestaköll.

Kona (18. júní 1802): Ingveldur (f. 14. júní 1776, d. 22. apríl 1837) Jafetsdóttir lóskera í verksmiðjunum í Rv., Illugasonar.

Börn þeirra, er upp komust: Ingibjörg átti Jón forseta Sigurðsson, Jafet gullsmiður í Rv., síra Ólafur á Stað á Reykjanesi, síra Guðmundur í Arnarbæli (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.