Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Jónsson

(1723–28. sept. 1785)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Jónsson í Saurbæjarþingum og kona hans Margrét Jónsdóttir að Kambi í Króksfirði, Erlendssonar. Gekk 6 ár í Skálholtsskóla, stúdent 6. maí 1748. Varð 10. maí s.á. djákn í Odda, en óvíst, hvort hann hefir viljað taka við því starfi fyrst í stað; a.m.k. var hann veturinn 1748–9 í Belgsholti og kenndi latínu sonum Arnórs sýslumanns Jónssonar. Fekk Stórólfshvolsþing 17. júlí 1752, vígðist 22. okt. s.á., bjó í Forsæti í Landeyjum 1754–68, en síðan í Sigluvík, til þess er hann fekk Landþing 30. nóv. 1776; þau hélt hann til dauðadags og bjó í Fellsmúla. Hann var skáldmæltur (sjá Lbs.) og þýddi Gellertssálma; stóð til, að þeir yrðu prentaðir, en ekki varð af því; nokkura þeirra má finna í Leirárgarðasálmabók. Var vel gefinn og vel látinn, en talinn nokkuð drykkfelldur.

Kona 1: Ragnhildur (d. 1757) Sigurðardóttir bryta í Skálholti, Þormóðssonar. Dóttir þeirra: Margrét, dó óg. og bl.

Kona 2: Anna (d. 29. dec. 1798 að Syðri Gegnishólum, 71 árs) Jónsdóttir í Þorlákshöfn, Þorsteinssonar,

Börn þeirra, er upp komust: Jón óg. og bl., Brynjólfur varð ekki að manni, flæktist víða, Ragnhildur, Ingibjörg átti Sigurð Guðmundsson að Gegnishólum, Elín átti Pál Bjarnason frá Sviðholti, Halldórssonar (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.