Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Guðmundsson

(16. og 17. öld)

Prestur.

Foreldrar: Síra Guðmundur Jónsson á Stað á Reykjanesi og kona hans Halldóra Guðmundsdóttir að Hvoli í Saurbæ, Jónssonar.

Lærði skólalærdóm innanlands og var síðan að námi utanlands (bað er ljóst af samtíma gögnum), en verið hefir það fyrir 1611 (má vera, að hann sé skráður í stúdentatölu í háskólanum 9. dec. 1607; þá er krotað í háskólaskrána lítt læsilegt nafn, sem þó raunar helzt líkist því að vera Guðmundus Jonæ); hins vegar má sjá það af bréfi Gísla byskups Oddssonar einu, að þeir hafa verið kunnugir á æskuárum, líklega verið að námi saman. Það er líklegt, að síra Einar hafi fyrst orðið aðstoðarprestur föður síns (prestur er hann orðinn 1614, sjá Alþb. Ísl.), og víst er það, að prestakallið fekk hann eftir lát hans 1619; hefir og gegnt Flateyjarprestakalli í milli presta um 1622. Hann hefir verið maður nokkuð stórlyndur enda komst hann í illkynjuð málaferli, vegna galdraáburðar á einn sóknarmann sinn, röng vottorð o. fl. Er og eignað síðari konu hans, að hún hafi átt mikinn þátt í þessu, með því að hún var svarkur mikill. Missti hann af þessum sökum prestakallið 1635 (bréfab. Gísla byskups Oddssonar, Alþb. Íslands).

Hins vegar hefir síra Einar verið mikilhæfur maður, því að hann hélt eða átti að taka við prófastsdæmi í Barðastrandarsýslu, vel að sér og vel skáldmæltur, hefir orkt Skotlandsrímur (pr. í Oxf. 1908) o.fl. (sjá PEÓI. Mm., Lbs.). Þormóður Torfason eignar honum og (í formála Hrólfssögu kraka) ritgerð um álfa og bergbúa. Síra Einar bjó eftir þetta á eignarjörð sinni Kleifum í Gilsfirði (líklega um tíma að Múla í Króksfirði), en 1649 bjó hann í Garpsdal.

Kona 1: Þóra (d. 1624, fremur en 1623) Finnsdóttir í Flatey, Jónssonar.

Börn þeirra: Tyrfingur að Krossi á Skarðsströnd og víðar, Kristín átti fyrr síra Þórð Jónsson í Garpsdal, síðar Steinólf Árnason frá Staðarfelli, síra Guðmundur í Skarðsþingum.

Kona 2: Sigríður Erlendsdóttir sýslumanns á Stóru Völlum, Magnússonar.

Börn þeirra: Síra Erlendur í Hjarðarholti, Hannes skáld að Kleifum í Gilsfirði, Þorleifur að Tindum, Guðmundur að Tindum og Kleifum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.