Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Guðbrandsson

(28. mars 1775–21. nóv. 1842)

Prestur.

Foreldrar: Síra Guðbrandur Sigurðsson að Brjánslæk og s.k. hans Sigríður Jónsdóttir prests á Gilsbakka, Jónssonar. F. að Brjánslæk. Eftir lát föður síns (1779) ólst hann upp hjá móður sinni í Rauðsdal, til 1788, er hún kom honum til bróður síns, síra Jóns Jónssonar á Gilsbakka. Tekinn í Reykjavíkurskóla hinn fyrra 1792, stúdent þaðan 13. júní 1797. Var síðan hjá ekkju móðurbróður síns, síra Jóns Jónssonar, til þess er hann vígðist 5. júlí 1801 aðstoðarprestur síra Þórðar Þorsteinssonar í Hvammi í Norðurárdal, en er síra Þórður fekk heilsu aftur, lét síra Einar af aðstoðarprestsstörfum hjá honum (1805). Bjó lengi að Brekku í Norðurárdal, en fluttist að Arnarholti í Stafholtstungum 1813, fekk Hjaltabakka 26. nóv. 1814, fluttist þangað vorið 1815, fekk Auðkúlu 16. nóv. 1840, fluttist þangað vorið eftir og var þar til dauðadags.

Hann var ljúfmenni, snotur í öllum prestverkum, góður söngmaður, hagleiksmaður og bókbindari. Hann lagði á fyrri árum stund á lækningar, og heppnuðust þær allvel.

Kona 1 (1803, konungsleyfi 3. dec. s. á): Ragnheiður (d. 18. júlí 1816, 59 ára) Jónsdóttir prests í Hvammi, Sigurðssonar, og var hún ekkja móðurbróður hans og fósturmóðir; þau bl.

Kona 2 (29. júlí 1817): Ingibjörg (d. 10. júní 1842, 66 ára) Magnúsdóttir sýslumanns í Víðidalstungu, Gíslasonar (ekkja Jóns Jónssonar á Auðunarstöðum); þau bl. (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.