Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Grímsson

(16. sept. 1761–26. dec. 1841)

Prestur.

Foreldrar: Grímur Björnsson að Stóru Laugum í Reykjadal og kona hans Hallfríður Einarsdóttir á Kálfaströnd í Mývatnssveit, Ingjaldssonar. F. að Þyrnishóli í Reykjadal. Lærði fyrst hjá Þorsteini stúdent Hallgrímssyni, síðar presti að Stærra Árskógi, en síðar hjá síra Jóni Egilssyni að Laufási.

Stúdent úr heimaskóla frá Hálfdani rektor Einarssyni að Hólum 25. júlí 1782, fekk s. d. predikunarleyfi. Var síðan næsta ár með foreldrum sínum, sem þá bjuggu á Narfastöðum í Reykjadal, en fór þá (1783) að Laufási til síra Jóns, sem andaðist ári síðar, og var 2 ár hjá ekkju hans. Var djákn á Grenjaðarstöðum 1786–90, fekk Þönglabakka 17. apríl 1790, vígðist 20. júní s. á., fekk Knappsstaði 22. dec. 1804, fluttist þangað vorið 1805, lét af prestskap 1835, fluttist þá fyrst að Gautastöðum, en 1838 að Brúnastöðum, og þar andaðist hann. Hann var góður klerkur, ráðsettur maður, og búnaðist honum vel.

Kona (27. júní 1790): Ólöf (f. 11. febr. 1765, d. 2. maí 1840 á Brúnastöðum) Steinsdóttir á Grund í Höfðahverfi, Jónssonar skálds að Hóli í Þorgeirsfirði, Þorsteinssonar.

Börn þeirra: Sesselja átti Guðlaug Jónsson að Miklahóli, Guðrún s.k. Jóns hreppstjóra Jónssonar á Brúnastöðum í Fljótum, Herdís átti Stein Jónsson á Gautastöðum í Stíflu, Hallfríður átti Árna Ásmundsson á Grundarlandi í Unadal (Vitæ ord.; HÞ.. SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.