Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Gottskálksson

(um 1710–1752)

Hólaráðsmaður, stúdent. Líkur eru taldar til þess, að faðir hans kunni að hafa verið Gottskálk lögréttumaður Þorvaldsson á Hreiðarsstöðum í Svarfaðardal (ef hann hefir ekki verið ættaður af Snæ-., fellsnesi). Hann hefir orðið stúdent úr Hólaskóla einhvern tíma á árunum 1732–4. Varð djákn að Þingeyraklaustri 1735, var skrifari Steins byskups Jónssonar 1737–9, dvaldist síðar með síra Halldóri Brynjólfssyni á Staðastað og var með honum í vígsluför hans utanlands veturinn 1745–6, fekk Svarfaðardalsumboð 1746 (fremur en 1747), varð Hólaráðsmaður 29. maí 1T51 til dauðadags, bjó í Viðvík.

Kona (um 1750–1): Guðrún Hannesdóttir. Dóttir þeirra: Ingibjörg átti Egil Gíslason á Miðgrund í Skagafirði. Guðrún ekkja Einars átti síðar síra Jón Jónsson í Grímstungum (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.