Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Eyjólfsson

(um 1641–15. júlí 1695)

Sýslumaður.

Foreldrar: Síra Eyjólfur Jónsson að Lundi og kona hans Katrín Einarsdóttir í Ásgarði í Hvammssveit, Teitssonar. Hann varð stúdent úr Skálholtsskóla, missti síðan prestskaparrétt vegna barneignar, en fekk uppreisn. Var síðan hjá föður sínum að Lundi, til þess er hann andaðist. Hans getur að Varmalæk í Borgarfirði 1677, fluttist ári síðar að Gunnarsholti á Rangárvöllum, varð lögréttumaður í Rangárþingi 1680, fluttist þaðan að Oddgeirshólum, en 1694 að Traðarholti, og þar andaðist hann, Var fyrst lögsagnari í Rangárþingi, en síðar oft í Árnesþingi, fekk Árnesþing (í móti Vigfúsi sýslumanni Hannessyni) 12. maí 1694, var skipaður 1694 í löpmannsstað á albingi (eftir fráfall Magnúsar lögmanns Jónssonar), fekk Snæfellsnessýslu 1695 og hugðist að flytjast vestur að Ingjaldshóli, en andaðist skömmu áður en til kæmi.

Hann var skarpvitur maður, lögvís, fornfróður og skáldmæltur. Hann hjálpaði Þórði byskupi við prentun fornsagna þeirra, er hann lét birta (vísur eftir hann til Þórðar byskups eru framan við Ólafssögu Tryggvasonar, Skálh. 1689); hann þýddi og á íslenzku Gronlandia síra Arngríms lærða, pr. í Skálh. 1688. Hann samdi skýringar á fornkvæðum, og hafa varðveitzt a.m.k. á Bergbúaþætti (sjá Lbs.), má og vera á Vafþrúðnismálum (ÍB. 684, 4to.; síra Torfi Jónsson í Gaulverjabæ segir hann hafa skýringar á þeim, í bréfi til Þormóðar Torfasonar 8. ág. 1684).

Kona (um 1675): Margrét (f. um 1645, d. á Óslandi í Óslandshlíð 19. okt. 1718) Halldórsdóttir prests í Hruna, Daðasonar (áður hafði hún átt Grím Einarsson).

Börn þeirra: Síra Grímur á Staðarbakka, Halldór sýslumaður í Þingeyjarþingi, Eyjólfur, er um tíma hélt Reynistaðarklaustur, bjó að Syðri Brekkum í Skagafirði 1733, andaðist í Reykholtsdal 1751.

Margrét ekkja Einars átti síðar (í 3. sinn) síra Odd Eyjólfsson í Holti (s.k. hans).

Laundóttir Einars (með Sigríði Ólafsdóttur prests, Hálfdanarsonar) var Anna (f. um 1666), sem átti fyrr Hálfdan lögréttumann Jónsson að Reykjum í Ölfusi, en síðar Magnús Einarsson að Reykjum (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.