Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Eiríksson

(– –í maí 1678)

Prestur.

Foreldrar: Síra Eiríkur Björnsson á Hallormsstöðum og kona hans Þórdís Hjörleifsdóttir prests í Bjarnanesi, Erlendssonar. Hann er í Skálholtsskóla 1651 og mun hafa orðið stúdent þá um vorið. Hann er með vissu orðinn prestur að Stóra Dal undir Eyjafjöllum 21. nóv. 1656 (hefir líklega vígzt þangað 1653), og bjó hann þá í Miðmörk.

Hann var kærður af sumum sóknarmönnum sínum árin 1671–3 fyrir óleyfileg mök við konu eina ógifta í sókn hans, en það mál virðist hafa hjaðnað niður og hann hafa haldið Stóra Dal til dauðadags, því að 2. júní 1678 kusu sóknarmenn annan prest (Einar Magnússon) í stað hans og nefna hann í skjalinu „þann guðhrædda og heiðarlega kennimann og hjartkæra sóknarprest í guði hvílda síra Einar sáluga Eiríksson.“

Kona: Guðrún Ólafsdóttir prests í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, Böðvarssonar. Dóttir þeirra: Elín miðkona síra Vigfúsar Ísleifssonar í Sólheimaþingum (HÞ; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.