Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Eiríksson

(1731–10. apr. 1810)

Prestur.

Foreldrar: Síra Eiríkur Hallsson í Grímstungum og kona hans Þórdís Arnbjarnardóttir prests að Undornfelli, Jónssonar. Hann lærði í Hólaskóla og kom sér þar heldur illa, stúdent þaðan 1754, vígðist 24. maí 1759 aðstoðarprestur föður síns, fekk 21. febr. 1778 prestakallið eftir föður sinn látinn. Var dæmdur frá kjóli og kalli 23. sept. 1785 fyrir prófastsrétti í héraði, og voru þungar sakir, sem á honum hvíldu, prang tóbaks og brennivíns, hneykslanlegur drykkjuskapur, ill meðferð á fyrri konu hans, ósæmilegt orðbragð, undandráttur við skipti eftir fyrri konu hans o. fl. Hafði hann stefnt dóminum til allsherjarprestastefnu á Flugumýri 1786, en áður en til kom, kenndi vinnukona hans honum barn, svo að hann tók áfrýjun sína aftur, enda þá sjálffallinn frá embætti. Hann virðist hafa verið svakamenni og ganga af honum ljótar sagnir (sjá Jón Þorkelsson: Þjóðsögur og munnmæli, Rv. 1899). Ella var hann talinn ekki illa að sér né ófróður, skartsmaður í klæðaburði og vel fjáður, meðan hann var í Grímstungum, þótt búskapur og fólkshald gengi hjá honum á tréfótum. Frá Grímstungum fór hann að Öxl í Þingi, og þar er hann 1789, síðar bjó hann í koti hjá Hvammi í Vatnsdal, en fór þaðan 1804 að Stóru Giljá, til Arnbjarnar stúdents Árnasonar, frænda síns, og fluttist með honum að Akri, en mun á sumrum og endrarnær hafa verið á flakki. Hann andaðist í Hvammi í Vatnsdal.

Kona 1 (1772): Þóra (d. 11. apr. 1784) Jónsdóttir prests að Kvíabekk, Sigurðssonar; þau bl.

Kona 2: Ingibjörg Guðmundsdóttir, er hann átti barnið með 1786, og var það sonur, Ólafur, bjó um hríð að Ósi á Skaga, heldur illa kynntur; eigi áttu þau fleiri börn saman (HÞ. Blanda III; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.