Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Einarsson, yngri

(um 1682–1737)

Bóndi, stúdent.

Foreldrar: Síra Einar Torfason á Stað á Reykjanesi og kona hans Ragnheiður Jónsdóttir sýslumanns að Miðhúsum á Reykjanesi, Magnússonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1697, mun stúdent þaðan 1702. Var með móður sinni í Hlíð í Þorskafirði, en mun um 1708 hafa sett bú að Tindum, en hafði einnig bú á eignarjörð sinni Miðhúsum (1709). Skömmu síðar hefir hann flutzt að Reykhólum og búið þar til 1716, er Ormur Daðason fluttist þangað, og fór þá aftur að Miðhúsum. Hann átti miklar deilur við Teit sýslumann Arason. Um 1730 fluttist hann að Hóli í Bíldudal, líklega til þess að fá betur gætt jarðarafnota sinna þar í grennd, en hann andaðist á Bíldudalseyri.

Hann var auðmaður.

Kona (1719): Helga (enn á lífi 1763) Árnadóttir lögréttumanns í Bíldudal, Guðmundssonar; hafði hún áður átt barn með Magnúsi kapteini Arasyni, og fengu þau Einar konungsleyfi til hjúskapar vegna frændsemi, eftir því sem nefnt er í konungsbréfinu 13. júní 1718; þau bl. (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.