Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Arngrímur Jónsson lærði

(1568–27. júní 1648)

Prestur, rektor, officialis.

Foreldrar: Jón Jónsson á Auðunarstöðum í Víðidal og kona hans Ingibjörg Loptsdóttir prests að Húsafelli, Þorkelssonar. F. á Auðunarstöðum. Fluttist 1576 að Hólum til Guðbrands byskups, frænda síns. Stúdent úr Hólaskóla og fór haustið 1585 utan til náms í háskólanum í Kaupmannahöfn. Fekk hann þar prýðilega vitnisburði frá kennurum sínum. Fekk konungsveiting fyrir Mel í Miðfirði 17. mars 1589, en lét föður sinn halda staðinn, til þess er hann andaðist (1591), en síra Þorlákur Hallgrímsson (faðir Guðbrands byskups) gegndi þar prestþjónustu þann tíma. Sumarið 1589 kom Arngrímur til landsins og varð rektor á Hólum, óslitið til 1595; jafnframt tók hann prestvígslu í maímánuði 1590 og gegndi störfum kirkjuprests á Hólum, en hélt aðstoðarpresta á Mel. Fekk 28. apr. 1596 konungsbréf um að vera aðstoðarmaður Guðbrands byskups, eftir ósk byskups sjálfs. Prófastur í Húnavatnsþingi hefir hann orðið 1597, en mun ekki hafa farið alfari frá Hólum fyrr en 1598. Eftir bréfi Guðbrands byskups 4. maí 1611 gaf síra Arngrímur Mel upp við annan prest, vafalaust af því að byskup hefir óskað að hafa hann nálægt sér, enda mun hann hafa gegnt Mælifelli 1611–24 og jafnvel haft þar bú, jafnframt því sem hann hélt og Miklabæ í Blönduhlíð og hafði þar aðstoðarpresta. En eftir að Guðbrandur byskup veiktist, varð hann officialis og gegndi öllum byskupsstörfum á meðan og til þess er hinn nýi byskup (Þorlákur Skúlason) kom til stólsins (1628). Var síra Arngrímur fyrst til nefndur á prestastefnu 20. ág. 1627 sem byskupsefni, en hann skoraðist undan því. Árið 1628 tók hann aftur við Mel og sat þar til dauðadags; lét hann þá af prestþjónustu annarstaðar. En jafnframt (29. apr. 1628) veitti konungur honum að léni afgjaldslaust ævilangt 7 jarðir Hólastóls, og mun það hafa verið til styrktar fræðistarfsemi hans.

Löngu áður (28. apr. 1594) hafði konungur veitt honum að léni gegn venjulegri landskyld Hallbjarnareyri í Eyrarsveit.

En með bréfi 17. apr. 1596 hafði konungur lagt fyrir hann að safna fornskjölum og snúa á dönsku, því er varðað gæti sögu Dana, sem Niels Krag vann að.

Greinir urðu síðan nokkurar með þeim Þorláki byskupi. Árið 1592–3 var hann utanlands í erindum Guðbrands byskups og aftur 1602–3. Hann hafði bréfaskipti við ýmsa lærða menn útlenda, og er sumt prentað (í „ÁApotribe calumniæ“), en einkum við Óla Worm (prentað í „Epistolæ“ hans, en sumt óprentað í AM. 267, fol.). Síra Arngrímur hefir verið einn lærðastur maður sinnar tíðar, og ritum hans, sem hann birti á prenti á latínu má eigna það, að útlendir fræðimenn tóku að gefa gaum Íslenzkum efnum.

Rit: „Brevis commentarius de Islandia“, Kh. 1593; „Crymogæa“, Hamb. 1610; „Anatome Blefkeniana“, Hamb. 1613; „Epistola pro patria defensoria“, Hamb. 1618; „Apotribe virulentæ et atrocis calumniæ “ Hamb. 1622; „Athanasia“ (þ. e. æviminning Guðbrands byskups Þorlákssonar), Hamb. 1630; „Specimen Islandiæ historicum“, Amsterdam 1643; „Gronlandia eður Grænlandssaga“, Skálh.1688; „Jómsvíkingasaga “ (latn. þýð.), Kh. 1877; „Skjöldungasaga“ (ágrip), Kh. 1894).

Prentaðar voru og eftir hann á íslenzku þýðingar á guðsorðabókum: Hinn stutti Davíðssaltari, sem kom út nokkurum sinnum; Biblia parva eftir Lúther, Sjö Krossgöngur eftir Mart. Hammer; en einkum ber að nefna Eintal sálarinnar („Soliloquium animæ “) eftir M. Mollerus, hin vinsælasta hugvekjubók, kom út 6 sinnum. Aftur má þykja ætla, að Sálmur í Davíðssaltara sá 91 (7 predikanir) sé að mestu frumsamið rit. Síra Arngrímur orkti og nokkuð bæði á íslenzku og latinu og þýddi sálma; ætla menn og að eftir hann séu Arnarrímur. Eftir góðum heimildum er hann talinn „yfirlætismaður“, en af dæmum má sjá, að eigi hafi hann verið búmaður að marki.

Kona 1 (1598): Solveig (d. 22. júní 1627) Gunnarsdóttir sýslumanns á Víðivöllum, Gíslasonar (nefnd „kvennablómi“); hún var 22. júlí 1588 heitin Daða Bjarnasyni frá Skarði, og er til konungsleyfi vegna frændsemi fyrir hjúskap Þeirra, dags. 27. nóv. 1588, en Daði kvæntist annarri konu ári síðar, og vita menn ekki, hvað valdið hefir hjúskaparbrigðum þar.

Börn þeirra, er upp komust: Jón í Sælingsdalstungu, og eru ættir af honum, Gunnar bl., Helga síðari kona Björns sýslumanns Magnússonar í Bæ á Rauðasandi, og eru ættir frá síra Páli í Selárdal, syni þeirra.

Kona 2 (1628): Sigríður (þá 27 ára) Bjarnadóttir prests á Grenjaðarstöðum, Gamalíelssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Síra Þorkell í Görðum á Álptanesi, síra Þorlákur á Staðarbakka, Solveig kona Jóns Jónssonar á Narfeyri, Ingibjörg kona Gísla Jónssonar í Svefneyjum, Bjarni prestur á Höskuldsstöðum, Guðbrandur sýslumaður á Lækjamóti, Hildur kona Jóns í Víðidalstungu Þorlákssonar (Pálssonar, Guðbrandssonar byskups). Niðjar síra Arngríms nefndu sig margir Vídalín; í langan tíma hefir enginn, sem af honum varð í beinan karllegg, nefnt sig svo (PEÓI. Mm.; Saga Ísl. V; Þorv. Th. Landfrs.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.