Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Bjarnason

(um 1653–1720)

Prestur.

Foreldrar: Síra Bjarni Sveinsson í Meðallandsþingum og kona hans Ólöf Eiríksdóttir að Kirkjulæk, Jónssonar. Hann var í Skálholtsskóla veturinn 1669–70, vígðist aðstoðarprestur 23. júlí 1676 síra Magnúsar Péturssonar á Hörgslandi, fekk prestakallið eftir hann 1686 og hélt til dauðadags, bjó á Prestsbakka (Bakka) á Síðu. Var prófastur í Vestur-Skaftafellssýslu frá 1703 til dauðadags. Hann sneri úr þýzku Persakonungasögum (sjá uppskriftir í Lbs.).

Kona: Katrín (enn á lífi 1731) Þórðardóttir prests að Kálfafelli, Guðmundssonar.

Dætur þeirra: Helga (dó óg.), Ólöf átti Torfa Pálsson á Löndum, Elín átti fyrst launbarn með Einari Sigurðssyni, en giftist síðar Eiríki lögréttumanni Gíslasyni í Flögu í Skaftártungu (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.