Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Einar Arnfinnsson

(um 1608–1688)

Prestur.

Foreldrar: Síra Arnfinnur Sigurðsson á Stað í Hrútafirði og kona hans Þórdís Guðmundsdóttir prests á Stað á Reykjanesi, Jónssonar. Var í skóla á Hólum veturinn 1627–S8. Varð djákn að Reynistaðarklaustri (sumir segja og síðar prestur þar, en það mun ranghermt). Þar átti hann laundóttur, er Guðrún hét og átti Halldór Þórðarson í Bár í Eyrarsveit. Síðar varð hann aðstoðarprestur föður síns og fekk prestakallið eftir lát hans 1653, og hélt til dauðadags. Raunar féll hann aftur í lausaleiksbrot 1666 (það barn er í ættbókum ýmist nefnt Jón eða Sigurður); dróst nokkuð að fá uppreisnarbréfið, svo að prestur var settur þangað, en þegar hann kom að Stað, hafði síra Einar nýlega fengið uppreisnarbréfið (1667). Hann þjónaði Núpssókn í Miðfirði sumarið 1673. Var vel að sér, hafði t. d. bréfaskipti við Óla Worm og sendi honum náttúrugripi. Hann var og fornfróður og lögvitur nokkuð; er eftir hann víða í handritum ritgerð, sem nefnist „Framfærslukambur “. Talið er og af sumum, að hann hafi hjálpað Guðmundi Andréssyni við ritgerð hans gegn stóra dómi og aðra, er af því spratt („„Nosce te ipsum“, þ.e. þekktu sjálfan þig), og víst er það, að fyrir tilmæli síra Einars barg Óli Worm lífi Guðmundar. Síra Einar kvæntist ekki (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.