Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Arngrímur Jónsson

(2. ág. 1737–24. ág. 1815)

Prestur.

Foreldrar: Jón lögréttumaður eldri að Háafelli í Hvítársíðu og kona hans Ingibjörg Stefánsdóttir prests á Stað í Grindavík, Hallkelssonar. F. að Síðumúla. Hélt eftir lát föður síns uppi búskap að hálfu Háafelli í 5 ár. Fekk konungsleyfi 16. mars 1759 að mega fara í Skálholtsskóla, fór þangað um haustið og varð stúdent þaðan 20. maí 1765. Vígðist 8. maí 1766 aðstoðarprestur síra Hálfdanar Nikulássonar í Hestþingum og setti bú að Hesti s.á., en síra Hálfdan dó í apríl 1769, og fekk þá síra Arngrímur raunar Ríp í Hegranesi 13. júní 1769, en afsalaði sér því prestakalli og fluttist vestur að Miklaholti, til síra Vigfúsar, bróður síns, og gegndi fyrir hann aðstoðarprestsstörfum, meðan síra Vigfús var utanlands (1769–70), fekk Saurbæjarþing 1770, en fór þangað ekki, heldur varð hann 13. okt. s. á. aðstoðarprestur síra Gísla Bjarnasonar á Melum. Eftir lát síra Gísla voru honum veittir Melar 22. ág. 1771, en lét af prestskap í fardögum 1796 og bjó síðan til 1800 að Melaleiti. Var þá á Barkarstöðum í Fljótshlíð 1 ár, en bjó síðan 1801–10 að Sjónarhóli á Álptanesi, var síðast í Görðum á Álptanesi til dauðadags. Hann var talinn iðjumaður mikill og stöðuglyndur, vel skynsamur, þótt ekki væri hann fljótskarpur.

Kona 1 (1766): Ragnhildur (d. 9. sept. 1799) Bjarnadóttir stúdents í Bjarnarhöfn, Sigurðssonar.

Börn þeirra: Málmfríður (d. 13. maí 1816 í Görðum, ráðskona þar, óg. og bl.), síra Bjarni á Melum, síra Jón að Borg á Mýrum, Ingibjörg síðari kona síra Sæmundar Hálfdanarsonar á Barkarstöðum (varð síðar 3. kona síra Guðmundar Jónssonar á Staðastað), Guðrún kona síra Halldórs Magnússonar í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Kona 2 (1801): Þrúður (f. 1766, d. að Útskálum, 26. júní 1834) Sigurðardóttir alþingisskrifara að Hlíðarenda (Sigurðssonar), er fyrr hafði átt Jörgen Hansen (d. 31. dec. 1798) verzlunarmann á Eyrarbakka. Þau síra Arngrímur bl. (Útfm., Beitist. 1816; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.