Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Egill Sigfússon

(1650–1723)

Prestur.

Foreldrar: Síra Sigfús kirkjuprestur Egilsson að Hólum og s.k. hans Ólöf Sigfúsdóttir að Hvassafelli, Ólafssonar. Hann lærði í Hólaskóla og var síðan í þjónustu Gísla byskups Þorlákssonar, sem veitti honum meðmæli til háskólans í Kh. 12. sept 1675, og þar var hann skráður í stúdentatölu 4. dec. 1675, varð attestatus, og er hann kom út, varð hann heyrari að Hólum (1678), en rektor þar 1684–95, fekk þá Glaumbæ (1695), fekk 25. dec. 1697 uppreisn frá konungi fyrir barneign (með ráðskonu sinni, Sigríði Geirsdóttur prests að Laufási, Markússonar) og leyfi til þess að halda prestakalli sínu, og hélt það síðan til dauðadags.

Hann var lærður maður og latínuskáld, en lítill búmaður, talinn góðmenni, en nokkuð einrænn.

Kona: Þuríður (f. um 1665, d. að Vatnsskarði í maí 1738).

Dætur þeirra: Þórvör átti fyrr síra Eldjárn Jónsson að Möðruvallaklaustri, varð síðar s.k. Jóns lögréttumanns Ólafssonar að Stóru Brekku í Hörgárdal, Ólöf átti fyrr Jón Jónsson í Stafni í Svartárdal, síðar Bergþór lögréttumann Jónsson í Krossanesi á Vatnsnesi.

Launsonur síra Egils (með Sigríði Geirsdóttur, sem áður er nefnd) var Árni í Vatnshlíð (f. 1697), drukknaði í dec. 1745 í læk hjá bænum (Saga Ísl. V; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.