Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Egill Jónsson

(29. sept. 1756 [16. okt. 1759, Vita] –18. júlí 1843)

Prestur:

Foreldrar: Jón Lýtingsson í Stafni í Deildardal og kona hans Margrét (f. um 1730, d. 25. okt. 1811) Egilsdóttir á Bjarnarstöðum í Kolbeinsdal, Bjarnasonar. F. að Tumabrekku í Óslandshlíð.

Lærði 3 ár undir skóla hjá síra Jóni Helgasyni í Hofsþingum, tekinn í Hólaskóla 1779, stúdent þaðan 15. apr. 1783. Var síðan 1 ár í þjónustu Magnúsar sýslumanns Gíslasonar að Geitaskarði, þá 1 ár hjá foreldrum sínum, gekk síðan um nýár 1785 í þjónustu Árna byskups Þórarinssonar, sem veitti honum ágæt meðmæli, svo að hann fekk Staðarbakka 20. júlí 1786, vígðist 22. okt. s.á., en tók við staðnum að fullu næsta vor, lét af prestskap 1826 og skilaði af sér staðnum vorið eftir; hann hélt aðstoðarpresta frá 1820.

Hann bjó á Staðarbakka til 1824, síðan 1 ár að Urriðaá, þá að Húki 1825–8, en fluttist þá að Mel í Miðfirði, til dóttur sinnar. Hann var mikill vexti og karlmannlegur og hafði liprar gáfur. Hann var skáldmæltur, hefir orkt „Aldarspegil“ o. fl. (sjá Lbs.).

Kona (1787): Ingibjörg (d. 12. nóv. 1824, talin 65 ára) Eiríksdóttir smiðs að Ýrarfelli í Tungusveit, Guðmundssonar.

Dætur þeirra, er upp komust: Margrét s.k. síra Halldórs Ámundasonar á Mel, Þorbjörg fáráðlingur, óg. og bl. (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.