Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Egill Helgason

(um 1648–1695)

Prestur.

Foreldrar: Helgi Einarsson í Ásgarði í Hvammssveit og kona hans Ingibjörg Björnsdóttir í Stóra Skógi í Miðdölum, Guðmundssonar.

Hann varð stúdent úr Hólaskóla, var í æsku á vegum Eggerts sýslumanns ríka Björnssonar að Skarði og í þjónustu hans, eftir að hann var orðinn stúdent. Fekk Garpsdal 1680, vígðist 18. júlí 1680, en var samt veturinn 1680–1 til heimilis að Skarði; bjó síðan á Ingunnarstöðum í Geiradal. Sóknarmenn í Staðarprestakalli á Reykjanesi vildu fá hann til sóknarprests, en það ónýttist, því að annar prestur hafði konungsbréf fyrir fyrsta prestakalli, er losnaði, og vildi fá það.

Síra Egill fekk Skarðsþing 4. júní 1683 og hélt til dauðadags, bjó hann þar í Hvalgröfum, en andaðist á Melum. Hann var skáldmæltur og hefir orkt vikusálma og erfiljóð eftir Eggert sýslumann ríka (sjá Lbs.). Ættbók hefir hann skrifað upp, þótt fátt muni í henni eftir hann.

Kona: Ragnhildur (f. um 1656) Þórðardóttir smiðs í Garpsdal, Björnssonar, og bjó hún í Hvalgröfum eftir lát manns síns.

Börn þeirra: Sigurður lögréttumaður í Ásgarði, síðar í Bjarnarhöfn, Gyríður átti Teit Guðmundsson (dóu bæði í bólunni miklu 1707) , Þuríður átti Magnús Bjarnason að Hólum, Sigríður, Þrúður (HÞ.; Saga Ísl. V; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.