Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Egill Guðmundsson Staffeldt

(1702–1754)

Stúdent.

Foreldrar: Síra Guðmundur Ormsson að Stafafelli og kona hans Jórunn Pétursdóttir. Tekinn í Skálholtsskóla 1719, stúdent 1722, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 6. nóv. 1723, og hlaut í aðgönguprófi sínu einhverja hina hæstu vitnisburði, sem sjást í prófbókum háskólans á þeirri öld, baccalaureus 6. júlí 1725. Hann var utanlands til 1732 samfleytt, fór 'þá heim með Jens sýslumanni Wium, utan aftur um haustið, en óvíst er, hvenær hann kom alkominn heim. Hann varð brjálaður, kallaði sig Snotrufóstra, og eru miklar þjóðsagnir um hann (sjá „Huld“ og Lbs.; predikanir eru og eftir hann í Lbs. 36, 4to.). Hann var hagmæltur bæði á íslenzku og latínu (sjá Vísnakver Páls lögmanns Vídalíns, Kh. 1897).

Hann fór, er hann kom heim aftur, til móður sinnar að Ketilsstöðum á Völlum, en hún átti í annað sinn Bessa sýslumann Guðmundsson (s.k. hans) , þau voru barnlaus, og arfleiddi hann börn hennar af fyrra hjónabandi að öllu fé sínu. 26. júlí 1749 kom móðir Egils honum fyrir hjá Hans sýslumanni Wium og gaf með allar eigur hans, en Wium kom honum um tíma fyrir hjá Pétri sýslumanni Þorsteinssyni, tók síðan við honum aftur, og hjá honum andaðist hann nálægt þingmaríumessu sumarið 1754 (Blanda V; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.