Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Egill Eldjárnsson

(líkl. 6. maí 1725–29. dec. 1802)

Prestur.

Foreldrar: Síra Eldjárn Jónsson að Möðruvallaklaustri og kona hans Þórvör Egilsdóttir prests í Glaumbæ, Sigfússonar.

F. að Stóru Brekku (Arnbjargarbrekku í Hörgárdal). Eftir lát föður hans tók Jón byskup Árnason hann að sér, setti hann í Skálholtsskóla 1738, varð stúdent þaðan 27. maí 1745, með ágætum vitnisburði, varð djákn í Viðey 10. júní 1746, var þar 6 ár, fekk síðan Mosfell í Mosfellssveit, vígðist þangað 23. júlí 1752, fekk Útskála 26. sept. 1753 (konungsstaðfesting 28. júlí 1755) og fluttist þangað 26. nóv. 1753. Hann var maður vel gáfaður, ræðumaður góður og skáldmæltur (um handrit, guðrækileg rit o. fl. sjá Lbs.). en prentað er eftir hann útfm.

Jóns byskups Árnasonar, erfiljóð eftir ekkju hans í útfm. hennar, Hól. 1778 og eftir Magnús amtmann Gíslason í útfm. hans í Kh. 1778. Hann lét sér og annt um jarðyrkju og fekk því verðlaun frá danska landbúnaðarfélaginu, enda bjó hann allvel og var efnamaður. Síra Guðmundur Böðvarsson, dótturmaður hans, var vígður honum til aðstoðarprests 12. júní 1785. Síra Egill var talsvert drykkfelldur, komst við það í illdeilur við menn, og var 1780 sektaður (af þessum ástæðum).

Svo kom, að hann var kærður af Skúla landfógeta Magnússyni fyrir drykkjuóspektir 1787 og dæmdur í prófastsdóminum um haustið frá kjóli og kalli; hugði hann skömmu síðar að segja af sér prestskap, en því var ekki sinnt, og var málinu skotið til prestastefnu á alþingi 1788, og var hann þar algerlega dæmdur frá kallinu. Tók síra Egill þetta sér svo nærri, að hann lagðist í rúmið og var með lítilli rænu síðan, enda hafði hann verið þunglyndur í æsku.

Hann fluttist að Lónshúsum 1789, en bjó í Króki 1790–9, fluttist þá að Reykjadal og var þar til dauðadags.

Kona (18. nóv. 1753): Guðrún (d. 24. júní 1797, 81 árs) Andrésdóttir frá Bútsstöðum, er verið hafði ráðskona í Viðey.

Börn þeirra, er upp komust: Árni skáld í Dufþaksholti, Andrés í Króki í Garði, Rósa átti síra Guðmund Böðvarsson síðast að Kálfatjörn (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.