Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eggert Ormsson

(1718–27. maí 1788)

Prestur.

Foreldrar: Ormur sýslumaður Daðason í Fagradal og kona hans Ragnheiður Þorsteinsdóttir að Skarði, Þórðarsonar (prests í Hítardal, Jónssonar). Tekinn í Skálholtsskóla 1739, mun hafa orðið stúdent 1742, fekk 25. jan. 1743 uppreisn fyrir barneignarbrot (með Helgu Gísladóttur 1742), Var að Hólum veturinn 1742–4 og hélt þar áfram námi við handleiðslu Harboes, vígðist haustið 1744 aðstoðarprestur síra Þorvarðs Magnússonar í Sauðlauksdal; þjónaði hann Bæjarsókn á Rauðasandi og bjó í Bæ, sem var eignarjörð hans. Fær hann lof í skýrslum Harboes um presta. Fekk Selárdal 5. ág. 1749 (konungsstaðfesting 28. nóv. s. á.). Í Selárdal var hann, til þess er hann lét af prestskap, 1785, en hélt ýmsa aðstoðarpresta, enda var hann auðugur maður, en gerðist snemma þungfær og heilsuveill lengstum. Honum var að mörgu vel farið, og risnumaður var hann. Hann fluttist 1786 að Sauðlauksdal og andaðist þar.

Kona (29. sept. 1745): Þorbjörg (d. 1809, 89 ára) Bjarnadóttir sýslumanns hins ríka að Skarði, Péturssonar, og voru þau systrabörn (konungsleyfi 18. apr. 1744).

Börn þeirra, er upp komust: Eggert í Bæ á Rauðasandi (d. í maí 1783), Ragnheiður átti síra Jón Ormsson í Sauðlauksdal, síra Torfi aðstoðarprestur í Flatey, síra Bjarni aðstoðarprestur föður síns (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.