Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Arngrímur Halldórsson

(14. sept. 1808–1. júlí 1863)

Prestur.

Foreldrar: Síra Halldór Magnússon, síðast í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og kona hans Guðrún Arngrímsdóttir prests á Melum, Jónssonar. Borinn í Háakoti í Fljótshlíð. Nam undir skóla hjá bróður sínum síra Jóni Halldórssyni á Barkarstöðum (síðar á Breiðabólstað).

Tekinn í Bessastaðaskóla 1827, stúdent þaðan 1833, með heldur góðum vitnisburði. Var síðan með foreldrum sínum, til þess er hann vígðist aðstoðarprestur síra Péturs Péturssonar í Stafholti 9. okt. 1836, en eftir andlát síra Péturs (í febr. 1837), tók hann að sér að gegna preststörfum í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd fyrir síra Ólaf Einarsson Hjaltested, sem fengið hafði það prestakall, en var barnaskólakennari í Rv. og tók ekki við Saurbæ fyrr en 1840. Var síðar að nokkuru aðstoðarprestur síra Ólafs og bjó í Saurbæ, en 1 ár á Kalastöðum, til þess er hann fekk Bægisá 27. apr. 1843, en þangað fluttist hann sama vor og bjó þar til dauðadags; gegndi hann jafnframt frá 1859 Myrká, sem með konungsúrskurði 18. sept. 1850 hafði verið sameinuð Bægisá við næstu prestaskipti. Síra Arngrímur var vel gefinn dugnaðarmaður og lánaðist vel, burðamaður og harðger, fastlyndur og alvörugefinn, söngmaður góður og lipur kennimaður. Hár maður vexti, með hvítgult hár og skegg.

Kona 1 (16. júlí 1835): Guðrún (f. 17. dec. 1807, d. 28. maí 1871) Magnúsdóttir hins ríka í Þorlákshöfn, Beinteinssonar. Þau áttu ekki lund saman, enda varð hún sturluð, og slitu þau samvistir um 1840, en hjónabandinu var slitið með amtsúrskurði 18. dec. 1845, og fekk hann leyfi til að kvongast aftur að henni lifandi.

Börn þeirra: Guðrún kona Páls smiðs Jóhannssonar í Fornhaga, Bjarni að Vöglum á Þelamörk (launsonur hans: Arngrímur Frímann, er sig nefndi ýmist Frímann Arngrímsson eða Frímann B. Anderson).

Kona 2 (12. maí 1849): Sigríður (f. 8. nóv. 1826, d. 29. okt. 1849 af barnsförum og barnið 3 dögum síðar) Þorláksdóttir að Vöglum, Þorlákssonar.

Kona 3 (1852): Inga (d. 29. jan. 1863, 45 ára) Jónsdóttir að Merkigili, Höskuldssonar, ekkja Jóhannesar Jónssonar í Hofstaðaseli. Af börnum þeirra komst eitt upp, Jóhannes, og fór hann til Vesturheims (Vitæ ord. 1836; HÞ.; SGrBt.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.