Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eggert Guðmundsson

(24. júní 1769[1766, Vita, og er það rangt] –24. maí 1832)

Prestur.

Foreldrar: Guðmundur ökonómus og síðar sýslumaður í Gullbringusýslu Vigfússon og kona hans Guðrún Þorbjarnardóttir hins ríka í Skildinganesi, Bjarnasonar. Fæddist að Arnarhóli, ólst upp með foreldrum sínum þar og í Belgsholti, lærði 1 vetur (1785–6) undir skóla hjá Helga fyrrum konrektor Sigurðssyni, tekinn í Reykjavíkurskóla hinn eldra 1786, stúdent þaðan 1. júní 1790, gekk síðan í þjónustu Magnúsar frænda síns Stephensens að Leirá, enda hafði hann verið þar á sumrum ráðsmaður, meðan hann var í skóla, og þókti hinn mesti afkastamaður. Fekk Staðarhraun 10. ág. 1792, vígðist 23. sept. s. á. og tók við staðnum þá um haustið, fekk Gilsbakka 4. okt. 1796 og fluttist þangað næsta vor; honum var veitt Stafholt 11. okt. 1806, en fór þangað ekki, heldur fekk 22. apríl 1807 Reykholt í skiptum við síra Eirík Vigfússon, fluttist þangað það vor og var þar til dauðadags, en tók síra Benedikt, son sinn, sér til aðstoðarprests 1826.

Varð prófastur í Borgarfjarðarsýslu 1811 og hélt því starfi til dauðadags. Hann var hraustmenni og frækinn, sem þeir bræður hans, en enginn sérlegur lærdómsmaður. Hann var auðugur maður og þókti nokkuð harðdrægur.

Kona (1793): Guðrún (f. 7. jan. 1770, d. 29. júní 1850) Bogadóttir í Hrappsey, Benediktssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Guðrún átti Magnús skipherra Waage (Jónsson) í Stóru Vogum, síra Benedikt síðast í Vatnsfirði, Halldóra átti fyrr síra Guðmund Bjarnason að Hólmum, en síðar Rögnvald Jónsson frá Gullberastöðum, Ragnheiður átti fyrr Björn gullsmið Jakobsson á Fitjum, en síðar Sigurð Helgason dbrm. og skáld á Jörfa; þau skildu (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.