Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eggert Eiríksson

(18. maí 1730–22. okt. 1819)

Prestur.

Foreldrar: Eiríkur lögréttumaður (d. 1779, rúml. sjötugur) Eggertsson að Reykjum í Tungusveit og f.k. hans Ragnheiður Þorbergsdóttir að Hofi í Skagafjarðardölum, Jónssonar, Lærði undir skóla hjá síra Birni Skúlasyni á Hjaltastöðum, tekinn í Hólaskóla 1751, stúdent þaðan 1758, var á sumrum á skólaárum sínum (og raunar áður) hjá Birni Markússyni, síðar lögmanni. Varð síðan djákn að Munkaþverá, en missti það starf vegna barneignar 1760, fekk uppreisn 15. maí 1761. Var síðan um hríð í þjónustu Sveins lögmanns Sölvasonar, vígðist 17. maí 1767 aðstoðarprestur síra Jóns Björnssonar að Auðkúlu og bjó í Sléttárdal (= Stóra Dal), fekk 18. júlí 1767 Undornfell, en nýtti sér ekki veitinguna, fekk 25. apríl 1768 leyfi til að vera aðstoðarprestur síra Grímólfs Illugasonar í Glaumbæ (en aðstoðarprestur hans og tengdasonur, síra Guðmundur Guðmundsson, fekk aftur Undornfell); settist hann þá fyrst að á Langamýri, en fluttist að Glaumbæ 1781 og fekk prestakallið 3. mars 1784, eftir lát síra Grímólfs, en hélt aðstoðarpresta frá 1797. Hann var hið mesta hraustmenni, og stóðst ekkert við honum, ef hann reiddist, manna fimastur og glímnastur, þótt lítill væri vexti, hverndagslega gæfur, drenglyndur maður og tryggur, nokkuð drykkfelldur. Hann var fjörmaður mikill, glaðlyndur og hnittinn; skarpgáfaður maður og kennimaður ágætur; hann var og skáldmæltur, og eru varðveittir ýmsir kviðlingar eftir hann og sagnir um hann (sjá Lbs.). Hann lét af prestskap 1814, fluttist þá að Reykjum í Tungusveit, til Henriks, bróður síns, og var þar til dauðadags.

Kona: Þóra (d. 14. apríl 1806, 82 ára) Björnsdóttir prests á Hjaltastöðum, Skúlasonar; þau áttu eitt barn, en það komst ekki upp. Talið er, að launsynir hans hafi verið Jóhannes að Vindheimum (skrifaður Jónsson) og Jón að Miðhúsum í Óslandshlíð (HÞ.; Blanda IV; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.