Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eggert Björnsson ríki

(1612–14. júní 1681)

Sýslumaður.

Foreldrar: Björn sýslumaður Magnússon í Bæ á Rauðasandi og f. k. hans Sigríður Daðadóttir að Skarði, Bjarnasonar. Fekk vesturhluta Barðastrandarsýslu 1636 og mun hafa haldið til dauðadags, en hafði oft lögsagnara. Hann bjó fyrst að Skarði 1633–6, síðan í Bæ á Rauðasandi 1636–45, síðan aftur að Skarði frá 1645 til dauðadags, en hafði og víðar bú.

Nokkurrar misklíðar gætti með honum og ýmsum, þótt sjaldan væri hávært, t.d. við stjúpmóður sína, samarfa konu sinnar, Ara í Ögri, föðurbróður sinn, Bjarna sýslumann Pétursson, Hákon Árnason, síra Einar Torfason (sjá bréfabók hans 1632–73 í þjóðskjalasafni; brot úr þingbók hans 1661–2 er og í s. st..

Hann fekk Skógarstrandarumboð 1653. Hann var mjög eftirgangssamur um galdramál, enda mun hálfbróðir hans, síra Páll í Selárdal, ekki hafa latt hann. Hann fekk mikinn arf og var búsýslumaður og fjáraflamaður mikill, enda varð hann einn hinn auðugasti maður um sína daga. Hann þókti aðgætinn um fjármuni, þó er honum hælt mjög bæði í lofkvæði („Bændahætti“), er hann var lífs 1677 (í AM. 152, 8vo), og erfiljóðum tvennum (í ÍBR. 87, 4to).

Kona (28. júlí 1633): Valgerður (d. 1702) Gísladóttir lögmanns Hákonarsonar; var hún talin örlát, en stórbrotin í skapi.

Börn þeirra, er upp komust: Guðrún eldri átti Björn sýslumann Gíslason í Bæ, Arnfríður átti Þorstein að Skarði Þórðarson prests í Hítardal, Helga eldri, d. óg. og bl. 27. okt. 1729, Helga yngri (d. 1729, 77 ára) átti (1687) Guðmund Þorleifsson ríka í Brokey, Guðrún yngri (d. 1746) átti (1689) Guðmund í Álptanesi Sigurðsson (lögmanns í Einarsnesi, Jónssonar) (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.