Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Arngrímur Gizurarson

(– – í dec. 1658)

Prestur. Foreldrar; Síra Gizur Gamalíelsson á Staðarbakka og f.k. hans Emerentíana Jónsdóttir. Er orðinn prestur haustið 1624, og víst var hann skömmu síðar prestur að Hólum í Blöndudal, en fekk 1628 Hof á Skagaströnd í skiptum, en vorið 1631 Ríp í Hegranesi.

Á prestafundi í Viðvík 16. maí 1636 er síra Arngrímur ekki talinn fær um að annast staðinn eða ábyrgjast innstæðu hans, enda bjó hann jafnan við bágindi og naut oftast tillags, sem ætlað var fátækum prestum. Árið 1644 hefir hann fengið Hofstaðaþing (Hofstaða- og Viðvíkursóknir), og þó gegnt um hríð áður Viðvík og Miklabæ í Óslandshlíð, og síðan 1642–4 Hofstaðasókn með Ríp.

Bjó hann þá í Kýrholti. Á prestastefnu í Viðvík 29. apr. 1652 var hann góðfúslega fenginn til að láta af prestskap, enda tíð messuföll í kirkjum hans. Var honum þá ætlað til uppeldis tillag af beztu prestaköllum Hólabyskupsdæmis.

Hann andaðist að Hólum.

Kona: Guðrún Jónsdóttir.

Faðir hans lagði bann við hjúskap þeirra, en síra Arngrími var leyft með helmingadómi í Spjaldhaga 18. sept. 1620 að kvongast henni, og hafði hann áður átt barn með henni. Af börnum þeirra eru nafngreind: Emerentíana, Elín móðir Sigmundar skálds Helgasonar í Kaldakinn á Ásum (Sigmundssonar), og eru þaðan ættir kunnar (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.