Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eggert Bjarnason

(18. jan. 1771 [1772, Vita] –13. júlí 1856)

Prestur.

Foreldrar: Bjarni landlæknir Pálsson og kona hans Rannveig Skúladóttir landfógeta, Magnússonar. Við lát föður hans (1779) tók Magnús lögmaður Ólafsson hann að sér og hafði hann hjá sér í Skálholti og síðar að Meðalfelli, lét hann læra undir skóla hjá Helga fyrrum konrektor Sigurðssyni, en tekinn var hann í Reykjavíkurskóla hinn eldra 1788, stúdent 1. júní 1793, með góðum vitnisburði, var fylgdarmaður Sveins læknis Pálssonar í rannsóknarferðum hans um landið 1793–5 og meðan hann var í skóla, varð skrifari hjá Vibe amtmanni á Bessastöðum 1795 í 4 ár, fekk Klausturhóla 9. mars 1799, vígðist 26. maí s. á., fekk Mosfell í Grímsnesi 3. dec. 1806 og fluttist þangað vorið eftir, Stóru Völlu á Landi 3. nóv. 1817 og fluttist þangað næsta vor, Saurbæjarþing 2. ág. 1837 og fluttist þangað vorið eftir, Stafholt 10. júní 1843, en lét af prestsskap vorið 1847 og fluttist sama vor að Stafholtsey, en vorið 1847 í húsmennsku að Efra Nesi, 1849–52 var hann í Stafholti, en síðan í Efra Nesi til dauðadags. Hann var hraustur að afli, snar og hinn mesti fjörmaður, hestamaður mikill og drykkjumaður, og þá heldur vanstilltur, en hverndagslega gæflyndur, söngmaður góður, en daufur ræðumaður, hirðulítill um embætti sitt, enda lítt hneigður til prestskapar, skeytingarlítill í klæðaburði, ófríður sýnum, móleitur í andliti, meðalmaður að vexti, stundaði talsvert lækningar og bar gott skyn á þau efni.

Kona 1 (10. okt. 1799): Þorgerður (f. 23. dec. 1776, d. 20. ág. 1810) Eyjólfsdóttir lögréttumanns (d. 1825) að Skógtjörn, Jónssonar.

Börn þeirra: Síra Bjarni í Garpsdal, Eyjólfur bókbindari (d. ókv. og bl.), Jórunn átti Geir Guðmundsson síðast að Fremri Brekku í Saurbæ, Melkjör í Efra Nesi í Stafholtstungum, Gunnar d. 1825 að lyfjanámi í Nesi, Guðrún átti Jón Gamalíelsson að Lambhúsum á Álptanesi, Ingibjörg óg., átti launbarn.

Kona 2 (30. maí 1811): Rannveig Guðmundsdóttir eldra í Fljótsdal í Fljótshlíð (d. 12 vikum eftir hjónabandið, 27. ág. 1811, 37 ára); þau bl.

Kona 3 (19. nóv. 1812): Þórunn (f. 4. júní 1792, d. 5. júlí 1846) Gísladóttir í Hlíðarendakoti, Jónssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Rannveig átti fyrr síra Magnús Nordahl í Meðallandsþingum, en síðar Gísla Magnússon í Rofabæ, Magnús ókv. og bl., Steinvör átti síra Magnús Gíslason í Sauðlauksdal, Gísli hreppstjóri, síðast að Giljum í Hálsasveit, Eggþóra átti síra Andrés Hjaltason í Flatey (s. k. hans), Björg átti Andrés járnsmið Þórarinsson í Holti í Stokkseyrarhreppi; þau skildu.

Svo er talið, að allar konur síra Eggerts hafi orðið geðveikar (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.; Blanda 11).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.