Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Daði Halldórsson

(um 1638–1721)

Prestur.

Foreldrar: Síra Halldór Daðason í Hruna og kona hans Halldóra Einarsdóttir á Hörgslandi, Stefánssonar.

Hann varð snemma smásveinn Brynjólfs byskups Sveinssonar (enn á skólaárum sínum), fram á vor 1661. Um 1660 varð hann sekur um barneignarbrot (með Guðbjörgu Sveinsdóttur smiðs, Sverrissonar, sjá sakeyrisreikninga Árnesþings 1660–1), en hefir þegar fengið uppreisn, því að hann vígðist 28. júlí 1661 aðstoðarprestur föður síns. En 1662 missti hann prestskap vegna barneignar (15. febr. s. á.) með Ragnheiði Brynjólfsdóttur byskups, Sveinssonar. Galt faðir hans í rétt og ráðspjöll (í arfsvon síra Daða) eftir samningi 1) hundr. hundr., og var það lukt smám saman (að fullu 23. maí 1667). Barn þeirra síra Daða og Ragnheiðar (Þórður) komst nokkuð á legg (andaðist úr brjóstveiki 1673). Brynjólfur byskup veitti síra Halldóri í Hruna einnig Reykjadal 1667, og lét hann síra Daða þjóna þeirri sókn, enda stendur í veitingabréfinu, að hann mætti „láta þjóna“, en uppreisn til prestskapar fekk síra Daði frá konungi 6. júlí s. á., er þó skyldi einungis gilda Hólabyskupsdæmi, af tilhliðrunarsemi við Brynjólf byskup, en fram hjá því var gengið, og fekk hann Steinsholt 1671, hélt það til 1717, en hafði aðstoðarpresta síðustu árin. Hann var ásjálegur maður, gáfaður og skáldmæltur (kvæði, sjá Lbs.). Hann samdi skýrslu um Heklugos 1693 (Ny kgl. Saml. 1094, C, fol.). Eftir hann er Bergþórsstatuta (um réttindi kirkna), sem kom af stað nokkurum deilum á 18. öld).

Kona: Ingibjörg Finnsdóttir í Snjallsteinshöfða, Guðmundssonar.

Börn þeirra: Margrét átti Jón í Flekkuvík Árnason (á Skúmsstöðum, Pálssonar) , Ingibjörg átti fyrr síra Guðmund Jónsson (aðstoðarprest föður hennar, er síðar bjó í Flögu í Skaptártungu), en síðan Kort lögréttumann Magnússon í Árbæ, Guðrún átti síra Eirík Oddsson að Hrepphólum (s.k. hans) (Saga Ísl. V; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.