Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Daði Guðmundsson

(6. ágúst 1706–í sept. 1779)

Prestur.

Foreldrar: Síra Guðmundur Jónsson, er fyrr var aðstoðarprestur í Steinsholti, en síðar bjó í Flögu í Skaftártungu, og kona hans Ingibjörg Daðadóttir prests í Steinsholti, Halldórssonar. Hann ólst upp hjá stjúpföður sínum Kort lögréttumanni Magnússyni í Árbæ í Holtum, tekinn í Skálholtsskóla 1725, en var (ásamt Jakob Eiríkssyni frá Búðum) vísað úr skóla veturinn 1729–30 vegna ofbeldis við Eirík Guðmundsson, er síðar varð prestur að Eiðum. Stúdent varð hann samt sumarið 1730 (burtfararvottorð 17. okt. 1730), með því að hann hafði þá lukt sekt þá, er á hann var lögð í synodus, fyrir þetta, fekk 18. okt. 1730 predikunarleyfi hjá byskupi. Hann var síðan til sjóróðra suður í Höfnum og predikaði þá eitt sinn í Kirkjuvogskirkju, ekki algáður.

Þetta barst til eyrna byskupi, og vildi hann þá ekki vígja hann til aðstoðarprests í Keldnaþingum, dróst þó á að gera það síðar, ef hann fengi siðsemdarvottorð frá prófasti í Rangárþingi.

Fekk amtmannsveiting fyrir Keldnaþingum í mars 1736, við uppgjöf síra Gottskálks Þórðarsonar, en ekki varð af vígslu hans, og boðaði byskup hann þó á sinn fund, með nauðsynleg skilríki. Hann bjó fyrst í Árbæ á Rangárvöllum, en frá 1742 að Lambafelli undir Eyjafjöllum.

Fekk loks 1750 Stóra Dal undir Eyjafjöllum, en 12. apr. 1756 Reynisþing í skiptum við síra Magnús Sveinsson, hélt þau síðan til dauðadags og bjó að Reyni, hélt aðstoðarpresta síðari ár ævinnar, vegna sjóndepru, enda var hann alblindur orðinn 17T1. Hann var vel gefinn og lögskýr, enda notaður af byskupi bæði til sækjanda og setudómara í prestamálum. Hann var söngmaður góður, glaðlyndur, gamansamur og skáldmæltur, og eru eftir hann gamankviðlingar og andleg ljóð (sjá Lbs.), lítill búmaður, enda veitti honum erfiðlega, og þó smámunasamur.

Kona 1 (1731): Þóra (f. 1703, d. 1738) Gottskálksdóttir prests að Heiði á Rangárvöllum, Þórðarsonar. Af börnum þeirra komst upp Gottskálk (f. 1737, d. 1774, líkl. úr holdsveiki).

Kona 2 (1740): Solveig Grímsdóttir lögréttumanns að „ Reyðarvatni, Jónssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Þóra átti Halldór Jónsson á Steinsmýri (miðkona hans), Ástríður átti fyrr Pál Vigfússon í Votmúla (þau bl.), síðar Jón kaupa Sigurðsson (hann fór í hegningarhúsið 1785 fyrir barneignir) , Þorbjörg. átti Björn Magnússon í Eyvindarholti, Guðmundur (varð úti með Reynistaðarbræðrum á Kijalvegi 1780), Grímur, Guðni (átti launbörn), Daði (komst í þjófnaðarmál) (BB. Sýsl.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.