Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Davíð Scheving (Hansson)

(um 21. apr. 1732–24. ágúst 1815)

Sýslumaður.

Foreldrar: Hans (eða Hannes) Scheving (Lárusson) klausturhaldari á Möðruvöllum og kona hans Guðrún Vigfúsdóttir að Hofi á Höfðaströnd, Gíslasonar. Var skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 20. dec. 1749, var þar í dec. 1751 andmælandi ritgerðar Eggerts Ólafssonar (,Disquisitio... circa ignem subterraneum...“, Kh. 1751).

Settur sýslumaður í Barðastrandarsýslu 11. ágúst 1752, fekk veiting fyrir sýslunni frá konungi 6. febr. 1753, hélt umboðsmann síðustu árin (Bjarna Einarsson), sem fekk sýsluna, er hann sagði henni lausri, 2. ág. 1781. Bjó í Bæ á Rauðasandi a. m.k. 1759–62, en síðar í Haga á Barðaströnd til 1809, þá fluttist hann að Hamri á Barðaströnd og var þar til dauðadags. Hann var setudómari í máli Ólafs Jónssonar á Eyri í Seyðisfirði og Erlends sýslumanns Ólafssonar, skipaður af amtmanni 19. júlí 1753. Var og 1. febr. 1801 settur til að gegna sýslumannsstörfum í Barðastrandarsýslu með aðstoð Guðmundar Schevings, dóttursonar síns, eftir að Oddi Vídalín hafði verið vikið frá. Hann var allvel lærður, og fóru honum vel úr hendi embættisverk; ófríður, en sómdi sér vel, enda prúðmenni, óásælinn og kom sér vel við sýslubúa sína, tryggur vinum sínum, en kaldur óvinum, hinn mesti reglu- og hófsmaður um alla hluti.

Kona (16. ágúst 1757): Þóra (d. 9. febr. 1784, 51 árs) Eggertsdóttir í Álptanesi, Guðmundssonar. Dóttir þeirra: Ragnheiður átti fyrr Bjarna sýslumann Einarsson, síðar Þorkel sýslumann Gunnlaugsson (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.