Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Davíð Scheving (Guðmundsson)

(18. júní 1802–24. ágúst 1842)

Bóndi, stúdent.

Foreldrar: Guðmundur sýslumaður Scheving, síðar kaupmaður í Flatey, og kona hans Halldóra Benediktsdóttir að Staðarfelli, Bogasonar. Tekinn í Bessastaðaskóla 1817, stúdent þaðan í maí 1822, fekk predikunarleyfi hjá byskupi 29. maí s.á., en stúdentsvottorðið er dagsett 15. júní s. á., og er það tæplega í meðallagi. S.á. (eða 1823) fór hann utan og skyldi taka aðgöngupróf í háskólanum, en það fórst fyrir, vegna svalls og óreglu.

Í Flatey er hann 1825. Fór aftur utan til Kaupmannahafnar 1826, en veturinn eftir lenti hann í klandri og kom út aftur huldu höfði 1827 til foreldra sinna, fór síðan (1828) að Haga á Barðaströnd, en fluttist því næst að Efra Rauðsdal á Barðaströnd og var þar til dauðadags; fannst örendur skammt frá bænum.

Umleitanir voru um að koma honum í aðstoðarprestsstöðu, en byskup synjaði, taldi síðast (í bréfi 7. mars 1833), að hann hefði fyrirgert stúdentsréttindum sínum með hegðun sinni.

Fekk ella allgott orð, en var stjórnlaus drykkjumaður. Var skáldmæltur (sjá Lbs.), og Eleónórurímur eftir hann voru prentaðar í Kh. 1837.

Kona 1 (3. nóv. 1825) Ragnheiður Jónsdóttir hins auðga að Kvígendisfelli; þau skildu bráðlega (áttu eina dóttur, sem dó þegar), og gekk hún síðan að eiga Ingimund hreppstjóra Grímsson í Miðhúsum á Reykjanesi.

Kona 2: Katrín Sigurðardóttir stúdents í Geitareyjum, Sigurðssonar, og hafði hann áður átt við henni barn, sem fæddist andvana; þau bl. Katrín ekkja hans átti síðar Erlend trésmið Jensen, og drukknuðu þau bæði 1847 á leið frá Stykkishólmi (Bessastsk.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.