Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Arngrímur Bjarnason

(7. júní 1804–13. apr. 1885)

Prestur.

Foreldrar: Síra Bjarni Argrímsson á Melum og kona hans Guðrún Sigurðardóttir klausturhaldara í Kirkjubæ, Ólafssonar. F. á Melum. Nam skólalærdóm hjá föður sínum og settist í efra bekk í Bessastaðaskóla 1820, stúdent þaðan 1825, með vitnisburði í betra meðallagi (dómgreind þó talin dauf), fekk predikunarleyfi 16. júlí s.á. Var næsta vetur í Belgsholti, síðan hjá síra Guðmundi Jónssyni á Staðastað (hann átti föðursystur hans), þá (1827) fór hann að Leirá, til Jónasar sýslumanns Schevings, sem hafði fjárhald hans, en Arngrímur var um hríð ekki talinn fjár síns ráðandi vegna sinnuleysis og hjárænuháttar og alla tíð undarlegur og hégómlegur í háttum. Var um kennt hörku föður hans í æsku hans. Eftir lát Jónasar Schevings (1831) var hann eitt ár skrifari og barnakennari hjá Birni sýslumanni Blöndal í Hvammi í Vatnsdal. Þaðan fór hann 1832 að Möðruvöllum til Gríms amtmanns Jónssonar og vann hjá honum eitthvað að skriftum, til þess er amtmaður fór af landi í burt árið eftir (1833). Fluttist Arngrímur þá til Reykjavíkur og vann um tíma að skriftum hjá Ulstrup landfógeta. Síðan fór hann að Leirá og keypti þá jörð, en varð að rýma þaðan fyrir Stefáni Scheving. Hóf hann þá búskap 1835 á eignarjörð sinni, Ási í Melasveit, og tók þá við erfðafé sínu, er var allmikið, en eyddist skjótt. Árið 1843 lét hann af búskap í Ási og var eftir það um hríð í Reykjavík oftast og vann að skriftum hjá ýmsum embættismönnum, er kenndu í brjósti um hann. Oft sókti hann um prestaköll, en byskupar þorðu ekki að trúa honum fyrir þeim, jafnvel ekki Grímsey 1837, þótt hann væri eini umsækjandinn. Loks var hann vígður 12. ág. 1849 til reynslu í 1 ár að Stað í Súgandafirði, fekk veiting fyrir því prestakalli 1852, en Álptamýri 7. febr. 1863 og loks Brjánslæk 27. júlí 1881; fekk lausn frá prestskap 1883, en gegndi preststörfum þar til vors 1884 og andaðist að Brjánslæk.

Kona 1 (21. maí 1835): Anna (f. 10. sept. 1814) Bjarnadóttir (systurdóttir síra Jóhanns Tómassonar að Hesti); þau skildu 1843; gekk hún þá að eiga Berg Björnsson og bjuggu þau fyrst að Læk í Melasveit, síðar á Akranesi.

Börn hennar og síra Arngríms eru talin 6, öll fædd í Ási, þar á meðal Júlíana Ólöf kona Magnúsar Einarssonar í Stóra Lambhaga, síðarí Rv. Síra Arngrímur fekk 1849 leyfi til að eiga konu eina, sem átt hafði barn í lausaleik, en eigi varð af því hjónabandi.

Kona 2: Málmfríður Ólafsdóttir frá Kirkjubóli í Skutulsfirði (d. 7. maí 1894).

Börn þeirra: Kristján smiður í Steinanesi, Málmfríður María, Jón Albert, Bjarni í Trostansfirði og Moshlíð á Barðaströnd, Sigurður Theodór (Vitæ ord.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.