Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Daníel Jónsson

(13. apr. 1769 [1771, Vita] –3. nóv. 1842)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Sveinsson, síðast á Stað í Steingrímsfirði, og kona hans Guðrún Jónsdóttir að Háafelli í Hvítársíðu, Vigfússonar. F. í Garpsdal. Lærði undir skóla hjá Hjalta stúdent, bróður sínum (síðar presti á Stað í Steingrímsfirði), tekinn í Reykjavíkurskóla eldra 1790, stúdent þaðan 11. júlí 1795, með lofsamlegum vitnisburði, enda fór orð af honum fyrir gáfur. Á sumrum var hann skólaár sín á Melum, hjá síra Arngrími Jónssyni, móðurbróður sínum. Eftir að hann varð stúdent, var hann 2 ár á Barkarstöðum í Fljótshlíð, hjá síra Sæmundi Hálfdanarsyni, sem átti frændkonu hans.

Fekk Staðarhraun 12. jan. 1797, vígðist 25. maí s.á., fekk Miðdalaþing 9. sept. 1816, fluttist þangað vorið 1817 og hélt til dauðadags, bjó í Skörðum, hélt aðstoðarpresta frá 1827. Hann var vel að sér og hagmæltur nokkuð, mikill maður og skörulegur, ræðumaður allgóður, hafði söngróm mikinn, en ekki að sama skapi mjúkan, trygglyndur, skapmikill og fastheldinn, en ekki orðvar, búsýslumaður mikill og smiður góður.

Kona (4. okt. 1797): Vigdís (f. um 27. maí 1771, d. 22. dec. 1830) Sigurðardóttir að Hrútafelli, Bjarnasonar (sýslumanns, Nikulássonar); þau bl. (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.